1. maí pistill formanns Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Afkoma samfélagsins á Íslandi á fyrri hluta 21. aldarinnar er þrátt fyrir allt með því besta sem þekkist í sögunni. Við búum í landi sem er ríkt af auðlindum – bæði af hendi náttúrunnar og mannauði. Með góðum vilja og réttum ákvörðunum getum við öll notið mannsæmandi lífskjara á Íslandi. Það er nóg til!

Yfirskrift 1. maí í ár „Það er nóg til“ er orðatiltæki sem flestir Íslendingar þekkja og nota gjarnan þegar gesti ber að garði. Fólki er boðið að njóta veitinga með viðkvæðinu „fáðu þér, það er nóg til“. En undirliggjandi meining er ekki síður „ekki vera feimin við að fá ykkur, við viljum deila með ykkur“.

Móðir mín heitin, sem ólst upp í stórum systkinahóp á alþýðuheimili, vandist því snemma að það væri sjálfsagt deila því litla sem var til með öðrum, sérstaklega þeim sem minna máttu sín. Hver man ekki eftir því að hafa komið í kaffi eða mat þar sem viðkvæðið var „endilega fáið ykkur meira, það er nóg til“. En það var samt ekki alltaf nóg til og því miður er það svo að enn í dag er enn ekki nóg til hjá öllum. Hins vegar virðist alltaf vera nóg til fyrir útvalda sérhagsmunahópa, elítuna sem alls ekki er tilbúin að deila af því sem er til með okkur hinum.

Nægir þar að nefna að nánast allar aðgerðir stjórnvalda í Kóvíd kreppunni miðuðu að því að verja fjármuni og völd sérhagsmunahópa á sama tíma og almennt launafólk átti að taka skellinn með skertu starfshlutfalli og hlutabótaleið stjórnvalda. Hér er eitthvað skakkt, er kannski bara nóg til fyrir suma?

Eins og í fyrri efnahagslægðum og kreppum hefur fyrst verið hugsað um sérhagsmunahópana áður en kemur að okkur hinum, almúganum í landinu. Þannig var stórfyrirtækjum, sem undanfarin ár höfðu greitt sér og eigendum tugi ef ekki hundruð milljarða í arð, komið á ríkisspenann.  Ríkisspenann sem dælir tugum milljarða inn í atvinnulífið í formi bóta og niðurfellingu skatta. Á sama tíma voru um 33.000 einstaklingar á hlutabótaleiðinni á skertum launum sem hagsmuna hópunum fannst vera meira en nóg. En við sem héldum og vildum trúa að það væri nóg til, fyrir okkur öll!

Því miður er rauði þráðurinn í áróðursmaskínu nýfrjálshyggjunnar í hinni svokölluðu Kóvíd kreppu sá að nú eigi stéttarfélögin með launafólk í broddi fylkingar að sýna ábyrgð. Helsta lausn og bjargráð nýfrjálshyggjunnar, þegar efnahagshrun og atvinnuleysi dundi yfir, var í raun að taka kjarasamninga úr sambandi og fresta eða fella niður umsamdar launahækkanir. Með þeim hætti átti svipta launafólk kjarasamningsbundnum réttindum og framfærslu með afleiðingum sem enn sæi ekki fyrir endann á.

Áróðurinn gekk líka út að það kostaði svo mikið að vera með starfsfólk. „Laun á Íslandi eru svo há” glumdi um gangana í Borgartúni og því var um að kenna að fyrirtækin stefndu í þrot. Ef þessi áróður hefði náð fram að ganga eru allar líkur á að afleiðingin hefði orðið enn víðtækara atvinnuleysi og alger djúpfrysting hagkerfisins. Þrátt fyrir barlóminn um „dýrt vinnuafl” þá var nóg til af fjármunum sem var dælt vinstri hægri út í atvinnulífið svo hægt væri að ráða fólk til vinnu á afsláttarkjörum. Þá var sko nóg til, það var bara ekki nóg til fyrir okkur hin, fólkið á gólfinu. Fólkið sem skapar samfélaginu hin raunverulegu verðmæti.

Afkomubónusar stjórnenda og arðgreiðslur til hluthafa hljóta að segja okkur hinum hversu vel gengur í íslensku atvinnulífi og að það hljóti að vera nóg til skiptanna. Hækkun launa æðstu stjórnenda fjömargra fyrirtækja virðist að minnsta kosti ekki vera eins kostnaðarsöm aðgerð og þegar kemur að hækkun launa til fólksins á gólfinu. Í þessu samhengi þarf varla að minna á ofurbónusa til forstjóra stórfyrtækja eða milljarða arðgreiðslna til eigenda sömu fyrirtækja. Það er einhvern vegin alltaf nógtil fyrir sérhagsmunahópana og þá sem eru betur settir í samfélaginu.

Partýið mitt er doggý eins og dalmatíuhundur
En ég slít hann í sundur

Þinn eini inngöngupassi er Blazzi!
Og ef þú veist ekki hver það er
Þá er þér ekki boðið
þér er ekki boðið!…

Höf: BlazRoca

Það var bara okkur, alþýðu landsins sem var ekki boðið í „partýið“ þó það væri sannarlega nóg til. Við vorum ekki með rétta „passann“.  En þeim sem var boðið voru sannarlega ekki til í að deila af hlaðborðinu með okkur. En þó svo okkur væri ekki boðið í „partýið“ eins og sérhagsmunahópunum, þá er okkur ætlað að borga fyrir partýið. Birtingarmynd gjaldsins er réttinda missir, skert laun og ótrygg afkoma svo dæmi séu tekin.  Því miður hefur Kóvíd kreppan ítrekað verið notuð sem skálkaskjól til að fremja alvarleg brot á þeim sem verst eru settir á vinnumarkaði. Það eitt og sér er alltof dýr partý passi!

Í komandi kosningum er frambjóðendum tíðrætt um að útrýma hinu og þessu og helst skal lita kóða allt klabbið. Útrýma á svifryki, húsnæðisskorti og skort á hjúkrunarrýmum skal lita kóða grænt og fallegt en um leið lækka laun kvennastétta í stórum stíl. Eitt stingur þó í augum, enginn frambjóðanda sem stigið hafa á stokk segjast ætla útrýma fátækt.

Ætli það sé meðvituð ákvörðun frambjóðenda að ætla ekki að útrýma fátækt?. Ætli þeim finnst ekki nóg til fyrir fátækt fólk, eða vilja þau gleyma að hér á landi er fátækt staðreynd þó nóg sé sannarlega til?.

Þannig heldur ójöfnuður á Íslandi áfram að aukast og er stéttarskiptingin orðin raunveruleg og áþreifanleg í okkar samfélagi. Samfélagi þar sem hinir ríku verða ríkari og fátækir sárafátækari. Það er sorgleg staðreynd í okkar auðuga samfélagi.

Baráttan heldur áfram. Stöndum öll saman og stöðvum skefjalausa sjálftöku sérhagsmunaafla á Íslandi.

Það er sannarlega nóg til. Líka fyrir okkur!

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga

DEILA