Íbúum í Vesturbyggð hefur fjölgað um 23% síðustu 10 ár. í byrjun árs 2011 voru íbúarnir 890 og hafði fækkað um 44% frá 1990 eða úr 1.540 manns í sveitarfélögunum fjórum sem mynduðu Vesturbyggð árið 1994, niður í 890 manns.
Síðan hefur fjölgað aftur í sveitarfélaginu og þann 1. apríl voru þeir orðnir 1.095. Fjölgunin frá 1. desember 2020 nemur 30 manns eða 2,8%. Fjölgunin á landsvísu nemur aðeins 0,3% á þessum tíma.
Helsta breytingin í sveitarfélaginu frá 2011 er stórfelld uppbygging fiskeldis og eru bein störf við fiskeldi vel á annað hundrað.
Á Vestfjörðum í heild hefur íbúum fjölgað um 34 frá 1. desember 2020 eða um 0,5%, sem er yfir landsmeðaltali. Alls voru 7.133 íbúar þann 1. apríl 2021.