Verkalýðsfélagið Baldur á Ísafirði 105 ára í dag

Frá aðalfundi Verkalúýðsfélags Vestfirðinga 2019. Finnbogi Sveinbjörnsson í ræðustól. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Frá því er greint á vefsíðu Verkalýðsfélags Vestfirðinga að 105 ár eru í dag síðan Verkalýðsfélagið Baldur var stofnað af verkafólki á Ísafirði 1. apríl árið 1916.

„Á þeim tíma var mikill uppgangur í bænum, vélbátum fjölgaði ört og mikil atvinna var hjá stóru verslununum sem jafnframt stóðu að útgerð og saltfiskverkun. Á stuttum tíma söfnuðust meir en 400 nöfn á félagalista Verkamannafélags Ísfirðinga, bæði sjómenn og landverkafólk, karlar jafnt og konur. Formaður félagsins var Júlíus Símonarson, titlaður húsmaður. Með honum í stjórn voru formennirnir Sigurgeir Bjarnason og Tómas Gunnarsson og Eyjólfur Bjarnason bókbindari. Félagið setti fram kröfur um hækkun dagvinnulauna og styttingu vinnudagsins úr tólf tímum í tíu. Voru kröfur félagsins í takt við samþykktir Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík, sem þá var nýstofnað. Ekki vildu atvinnurekendur ganga að þessum kröfum og var þá boðað verkfall á Ísafirði. Stóð verkfallið hjá stærstu atvinnurekendum í nokkra daga, en þá tók samstaðan að bregðast og fólk að sækja í vinnu á ný fyrir sömu laun og kjör og áður. Þar með stóð félagið eftir máttlaust og lognaðist útaf í kjölfarið.“

Verkalýðsfélagið Baldur gerðist ásamt átta öðrum félögum á Vestfjörðum stofnandi Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2002.  Formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga er Finnbogi Sveinbjörnsson.

Hér má lesa nánar um sögu Baldurs. Sigurður Pétursson, sagnfræðingur tók saman.

Mynd: Verkvest.

DEILA