Þorsteinn Sigurðsson er nýr forstjóri Hafrannsóknastofnunar

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað Þorstein Sigurðsson í embætti forstjóra Hafrannsóknastofnunar til næstu fimm ára.

Sig­urður Guðjóns­son sem verið hefur for­stjóri Haf­rann­sókna­stofn­un­ar mun láta af embætti fyrsta apríl þar sem hann fékk ekki endurráðningu, en auk hans og Þorsteins voru fjórir aðrir umsækjendur um starfið. 

Þorsteinn Sigurðsson er með BS gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og Cand. Scient gráðu frá Háskólanum í Bergen. Þorsteinn hóf störf sem sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun árið 1994.

Árin 2005 til 2016 starfaði hann sem forstöðumaður nytjastofnasviðs og frá árinu 2016 til 2019 var hann forstöðumaður sviðs uppsjávarlífríkis. Árið 2020 hóf hann störf sem sérfræðingur á skrifstofu sjávarútvegs og fiskeldis í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, nú skrifstofa sjávarútvegsmála. Alls bárust sex umsóknir um embætti forstjóra Hafrannsóknarstofnunar, en umsóknarfrestur rann út þann 19. janúar 2021 og mat hæfn­is­nefnd þrjá umsækj­endur vel hæfa til þess að gegna embættinu.

Ráðherra var sammála mati nefndarinnar og boð­aði í kjölfarið þá þrjá sem metnir voru hæfastir í við­tal þar sem ítar­lega var farið ofan í ein­staka þætti starfs­ins. Var það mat ráð­herra, að Þorsteinn væri hæfastur umsækj­enda til að stýra Hafrannsóknastofnun til næstu fimm ára.

DEILA