Þjóðgarður á Vestfjörðum: þar sem fólkið er vandamálið

Birt hafa verið tillaga að friðlýsingu þjóðgarðs á Vestfjörðum. Frestur til athugasemda er 26. maí 2021.

Athugasemdum má skila með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar,
Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Þeir sem geta gert athugasemdir eru landeigendur og aðrir rétthafar lands, viðkomandi
sveitarfélög og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta, segir í bréfi Umhverfisstofnunar.

Svæðið sem er friðlýst er Geirþjófsfjörður, Dynjandi og Vatnsfjörður auk jarðanna Hrafnseyrar og
Brjánslækjar.

Friðlýsingin hefur þann tilgang að vernda landið og náttúru svæðisins fyrir mannfólkinu. Umhverfisstofnun hefur umsjón með svæðinu. Stofnunin ræður þjóðgarðsvörð sem fer með daglega umsjón og rekstur þjóðgarðsins. Þjóðgarðsvörður ræður starfsfólk. Gestum þjóðgarðsins ber að hlíta fyrirmælum þjóðgarðsvarðar og landvarða hvað
snertir umgengni og háttsemi í þjóðgarðinum. Þjóðgarðsverði og landvörðum er heimilt að vísa fólki úr þjóðgarðinum.

Umhverfisstofnun stjórnar

Umhverfisstofnun er heimilt að loka þjóðgarðinum, í heild eða að hluta, í verndarskyni.

Athafnir og framkvæmdir, þ.m.t. mannvirkjagerð og aðrar breytingar á landi, innan þjóðgarðsins eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar.

Afla skal leyfis Umhverfisstofnunar vegna athafna og verkefna sem hafa í för með sér hættu á jarðraski eða truflun fyrir lífríki eða umferð um verndarsvæðið, s.s. ljósmyndun, kvikmyndagerð, viðburðir og samkomuhald eða önnur verkefni.

Viðhald og þjónusta við vegi og raflínur á svæðinu er heimil án þess að leita þurfi leyfis Umhverfisstofnunar svo fremi sem framkvæmdir hafi ekki áhrif á verndargildi svæðisins enda verði hvorki raskað vistkerfum né jarðminjum sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.

Í þjóðgarðinum eru allar athafnir og framkvæmdir sem hafa varanleg áhrif á náttúru svæðisins bannaðar nema þær séu nauðsynlegar til að markmið friðlýsingarinnar náist.

Aðeins heimilt að tjalda í eina nótt og ekki fleiri en þrjú tjöld

Fólki sem ferðast fótgangandi eða á reiðhjóli með allan sinn farangur er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum utan skipulagðra tjaldsvæða til einnar nætur. Ef um fleiri en þrjú tjöld er að ræða, skipulagða hópferð eða ef tjaldað er til fleiri en einnar nætur þarf leyfi Umhverfisstofnunar.