Teigsskógur: vongóður um samninga

Horft út Þorskafjörðinn.

Fram kemur í frétt á RÚV í gær að Vegagerðin höggvi nú leið gegnum birkið í Teigsskógi í Gufudalssveit, þar sem nýr Vestfjarðavegur á að liggja. Það er gert til þess að leita af sér allan grun um að þar leynist fornleifar.

BB hafði samband við Sigurþór Guðmundsson verkefnastjóra Vegagerðarinnar með frekari fyrirspurnir varðandi áframhaldandi vinnu og vegagerð íTeigsskóg.

Sigurþór segir að þetta verk sem verið er að vinna núna sé hluti af skilyrðum í framkvæmdaleyfi til veglagningarinnar og aðspurður hvort þetta séu viðtekin skilyrði segir hann að framkvæmdaleyfi séu að öllu jöfnu ekki svona ítarleg.

Einnig er stefnt á að fuglatalningar hefjist í vor og verði reglulega til haustsins og síðan næstu árin í tengslum við verkið.

Í næstu viku verður hafist handa við þverun Þorskafjarðar sem styttir Vestfjarðaveg um tíu kílómetra. Framkvæmdir á rúmlega sex kílómetra kafla í Gufufirði hafa þá staðið yfir í vetur og á að ljúka í júlí á þessu ári.

Stefnt er svo á að Djúpadalsvegurinn fari í útboð núna í vor segir Sigurþór.

Sigurþór var inntur eftir gangi viðræðna við landeigendur jarðarinnar Gröf og hvort hann byggist við lendingu í þeim. „Ég er vongóður um að samningar náist en get ekki sagt á þessari stundu af eða á“ var svar Sigurþórs.

Ef samningar nást ekki þarf að skoða eignarnám en eins og Sigurþór segir orðrétt, við erum ekki komin þangað.

DEILA