Strandagaldur fær 2 m.kr. styrk í 3 ár

Stjórn Strandagaldurs.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt að veita Strandagaldri 2 milljón króna styrk á ári í þrjú ár, 2021-2023. Í umsókn Strandagaldurs segir „að slíkur langtímasamningur myndi skipta miklu máli fyrir starfsemina á þeim
erfiðu tímum sem nú eru uppi og munu fylgja í kjölfar samdráttar í ferðaþjónustunni vegna Covid. Það er einlæg stefna okkar að halda safninu áfram opnu og starfseminni í gangi allt árið um kring og standa þessa erfiðu tíma af okkur.“

Í umsókninni segir að í stefnumótun og starfi Strandagaldurs sé lögð mikil áhersla á að starfsemin hafi jákvæð samfélagsleg áhrif og jákvæð margfeldisáhrif fyrir ferðaþjónustu og atvinnulíf.

Unnið verður að því að bæta húsnæði og umhverfi á næstu þremur árum:

  • Klára viðhald og uppbyggingu á húsnæði sýningarinnar sem er komin vel af stað. Næst á dagskrá er að skipta um þak á austurhúsinu á Hólmavík og setja á það timburþak með rennisúð. Klæða síðan veggi hússins.
  • Vinna í að hefja Galdragarðinn aftur til vegs og virðingar.
  • Lagfæra Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði.
  • Áhersla verður á ytra útlit húsanna fyrst um sinn og svo í framhaldi farið í að vinna að húsnæðinu að innan og sýningunum sjálfum.
  • Vinna með aðilum í nærumhverfinu og listamönnum nær og fjær að minni sýningum á safninu.

DEILA