Stóri plokkdagurinn verður haldin laugardaginn 24. apríl en það verður í fjórða sinn sem dagurinn er haldin hátíðlegur. Plokk á Íslandi heldur út virkum hópi á samfélagsmiðinum Facebook þar sem um sjö þúsund meðlimir deila myndum af sínu plokki og sinni útivist. Þar er plokktímabilið 2021 sannarlega hafið. Þrátt fyrir samkomubann í fyrra tókst dagurinn frábærlega og nú er unnið að skipulagi plokks um allt land þennan síðasta laugardag aprílmánaðar.
Samkomubann er alveg upplagt til þess að plokka því það er frábær útivera og hreyfing um leið og við finnum fyrir tilgangi, sjáum árangur, eflum núvitund og gerum umhverfinu og samfélaginu okkar gott. Plokkið kostar ekkert og kallar ekki á nein tæki nema ruslapoka. Allsstaðar um landið eru öflugustu plokkararnir okkar þó löngu byrjaðir og hægt er að fylgjast með afrekum þeirra í þágu umhverfisins og samfélagsins á Faceook síðu Plokk á Íslandi.
Ísafjarðarbær hvetur íbúa til virkrar þátttöku í deginum og plokka í sínu næsta nágrenni eða á öðrum vel völdum svæðum. Hægt verður að skilja ruslið sem safnað er eftir á eftirfarandi stöðum:
Flateyri: Aftan við bensínstöðina
Hnífsdalur: Framan við gamla barnaskólann
Ísafjörður, efri bær: Við áhaldahúsið
Ísafjörður, eyri: Í skotið bílastæðamegin við Stjórnsýsluhúsið
Ísafjörður, Holtahverfi: Við sparkvöllinn, Góuholtsmegin
Ísafjörður, Seljaland: Aftan við strætóskýli á Brúarnesti
Ísafjörður, Tunguhverfi: Við glergáminn hjá Bónus
Suðureyri: Við glergám hjá hafnarvog
Þingeyri: Við flöskusöfnun á tjaldsvæði
Vesturbyggð tekur þátt í Stóra plokkdeginum en hann verður helgina 23.-25. apríl n.k. og óskar að sjálfsögðu eftir þátttöku frá öllum sem vettlingi geta valdið en sérstök áskorun er til þátttöku frá:
- Forystufólki sveitarfélagsins
- Lionsklúbbi Patreksfjarðar
- Kvenfélögunum
- Slysavarnadeildunum
- Íþróttafélögunum
- Börnum og ungmennum
Á Tálknafirði er það Grænfánanefnd Tálknafjarðarskóla og Tálknafjarðarhreppur sem standa að plokkdeginum í sameiningu og í þetta skiptið munu sjálfboðaliðar á vegum Veraldarvina leggja Tálknfirðingum lið í plokkinu. Það að plokka er frábært tækifæri til að sameina útiveru og hreyfingu sem og að sýna umhverfinu og samfélaginu kærleik í verki.
Á Reykhólum er Umhverfisdagurinn 24. apríl á stóra plokkdeginum sjálfum. Við ætlum að hittast upp í Reykhólaskóla klukkan 11 og fá poka til að tína í og skipta okkur svo upp og tína í þorpinu og gera fínt í kringum okkur, við ætlum að leggja áherslu á svæðið meðfram vegum en samt reyna að taka auðvitað allt svæðið segir í tilkynningu frá Reykhólahreppi.
PLOKKTRIXIN 8:
- Finna eða fá útvegað svæði til að plokka á og hvetja alla fjölskyldumeðlimi til þátttöku
- Tengja sig inn á stofnaðan viðburð, „Stóri Plokkdagurinn 2021“
- Útvega sér ruslapoka og hanska
- Klæða sig eftir aðstæðum og veðri
- Virða samkomubann og gæta fjarlægðar
- Koma afrakstrinu í gáma sem verða staðsettir við áhaldahús á Patreksfirði og Björgunarsveitarhúsið á Bíldudal
- Gæta fyllstu varúðar og brýna fyrir börnum að láta hættulega hluti vera, en jafnramt að tilkynna það foreldrum eða öðrum sem geta hjálpað
- Vera dugleg að nota samfélagsmiðla – setja inn myndir á Facebook og Instagram með myllumerkjunum #vesturbyggdplokkar2021 og #plokk2021 þannig að til verði skemmtilegt safn af plokkmyndum