Samgöngunefnd Fjórðungssambandsins vill aukna vetrarþjónustu

Samgöngunefndin ályktaði um vetrarþjónustu á fundi sínum í byrjun mars. Samgöngunefndin harmar að fjárveitingar til vetrarþjónustu eru ekki aðlagaðar að ástandi vega og veðurfars hverju sinni. Breyta þarf viðmiðunum og mæta auknum þörfum atvinnulífs og samfélaga segir í ályktuninni, en mörg ár eru þar til að lokið verði við vegaframkvæmdir samkvæmt Samgönguáætlun 2020-2034.

Helstu verkefni á Vestfjörðum eru samkvæmt áherslum nefndarinnar:

  • farið verði strax í að hækka verði þjónustustig á Strandavegi norður í Árneshrepp, úr G flokki í F flokk (mokstur tvisvar í viku). Ekkert annað sveitarfélag í landinu býr við þá stöðu að vera lokað inni í þrjá mánuði á ári.
  • farið verði strax í að moka alla daga á Dynjandisheiði. Reynslan sýnir að mögulegt er að halda heiðinni opinni, en núverandi þjónusta miðast við þarfir atvinnulífs, en mætir mun síður þörfum íbúa að sækja þjónustu og afþreyingu á milli norðan og sunnanverðra Vestfjarða, auk aksturs ferðamanna.
  • farið verði strax í að lengja þjónustutíma á Vestfjarðavegi 60, um Klettháls og í Gufudalssveit og mæta brýnni þörf atvinnulífs og samfélaga.
  • bætt verði við vetrarþjónustu um Bíldudalsvegi af Dynjandisheiði og að flugvelli.
  • lengja þarf þjónustutíma almennt en sérstaklega þarf að huga að aukinni vetrarþjónustu á Mikladal, Hálfdán og um Súðavíkurhlíð þar til gerð hafa verið jarðgöng til að leysa af þessa vegkafla.