Páskar í framhjáhlaupi og orð í eyra frá Pollýönnu

Exodus

Flest orð eiga sér einhvern uppruna eða sögu.  Orðið páskar er komið til okkar úr forngrísku.  Gríska sögnin „paskó“ merkir að fara framhjá.  Þess vegna eru páskar stundum nefndir „Passover“ í ensku.  En til hvaða atburðar vísar þessi sögn „paskó“ og hví er hún notuð sem nafn á sjálfri páskahátíðinni?

Sögnin vísar til tíundu plágunnar, sem gekk yfir Egyptaland á dögum Móse þegar Ísraelsmenn voru þrælar faraós.  Móse bauð Hebreunum að fórna lambi og rjóða blóði þess á dyrastafinn.  Það hafði þau áhrif að drepsóttin fór framhjá húsum Hebreanna.  Eftir tíundu pláguna gaf faraó Hebreunum frelsi og leyfi til að fara burt frá Egyptalandi.  „Paskó“ vísar þannig til plágunnar, sem fór framhjá.  Frá þessu er sagt í 12. kaflanum í annarri Mósebók.

Blóðið var sóttkví þess tíma.  Enginn knýr dyra og fer inn i hús, þar sem útihurðin er ötuð blóði.  Fólk sneiðir framhjá slíkum stað.  Blóðið einagraði Hebreana og bjargaði þeim þannig frá þessari pest.

Enn þann dag í dag halda gyðingar páska hátíðlega.  Þá minnast þeir frelsunarinnar út úr þrælahúsi faraós og hvernig Guð leiddi þá gegnum Sefhafið.  Hjá kristnum mönnum fékk páskahátíðin nýja merkingu.  Hún varð að minningu og endurupplifun á upprisu Jesú Krists.  Á páskum fagna kristnir menn upprisu Jesú og því að hann sigraði dauðann.  Páskar eru þannig fyrirheit um að kristnir menn geti komist framhjá dauðaríkinu hel og risið upp til eilífs lífs hjá Guði.  Páskar eru fyrirheit um eilíft líf og endurfundi ástvina á himnum.

Manere

Páskar 2021 eru aðrir páskarnir í röð, þar sem við stijum og bíðum þess að covid-plágan gangi yfir og fari framhjá okkur.  Öll heimsbyggðin bíður þannig eftir páskum, bíður þess að verða frjáls undan því ófrelsi og ógn, sem alheimspest og mannskæður faraldur leggur okkur á herðar.  Það er sem þungt ok hafi verið lagt á okkur því fólki er bannað að koma saman til að messa eða halda tónleika svo dæmi séu tekin.  Nú bíðum við eftir bóluefni, við bíðum þess að verða frjáls og að lífið falli aftur í sitt eðlilega far.  Og mörgum finnst biðin vera orðin löng.

Consolatione

Sumum þykir að nóg sé komið af sóttvörnum.  Fólkið er orðið þreytt á höftum.  Nú síðast kvartar fólk yfir því að þurfa að vera á hóteli í fimm daga innilokað.

Pollýanna hefði getað sagt okkur að þetta væri smáræði miðað við það, sem Markús Árelíus Rómarkeisari lenti í.  Á hans dögum gekk plága yfir Rómarríkið.  Og keisarinn spurði sinn sóttvarnarlækni hvað hann ætti að gera.  Og læknirinn ráðlagði honum um heilt.  Hann sagði keisarinum að best væri að vera á ferðalagi meðan pestin gengi yfir.  Keisarinn skyldi sneiða hjá borgum og margmenni og reyna að vera sem fjarst þeim stöðum, þar sem pestin geisari.  Og þetta gerði keisarinn.  Í áratug var Markús Árelíus Rómarkeisari í tjaldútileigu um allar sveitir Evrópu.  Í tíu ár komst hann aldrei heim til sín í keisarahöllina í Róm.

Þannig að við þurfum ekki að kvarta.  Þökk sé nútímavísindum þá er bóluefnið á leiðinni til okkar og það mun ýta þessari pest frá okkur.  Og þá munum við loksins geta sagt:  Paskó!

Kæri lesandi, ég óska þér gleðilegra páska og góðrar framtíðar.

Magnús Erlingsson,

prestur á Ísafirði.

DEILA