Merkir íslendingar – Kristín Ó Thoroddsen

Kristín Thoroddsen fæddist á Ísafirði. 29. apríl 1894, dóttir Skúla Thoroddsen, sýslumanns á Ísafirði, alþm. og ritstjóra, og Theodóru Thoroddsen skáldkonu.



Skúli var bróðir Þorvalds Thoroddsen náttúrufræðings, Sigurðar landverkfræðings, föður Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra, og Þórðar, læknis og alþm., föður Emils tónskálds, en Theodóra var móðursystir Muggs og Péturs Thorsteinssonar sendiherra.



Meðal systkina Kristínar voru Guðmundur yfirlæknir; Skúli alþm.; Katrín læknir og alþm.; Bolli borgarverkfræðingur og Sigurður, verkfræðingur og alþm. langafi Katrínar Jakonsdóttur, forsætisráðherra.



Kristín ólst upp á Bessastöðum frá sjö ára aldri, lauk gagnfræðaprófi frá MR, var við nám og störf á Dronning Louises barnaspítalanum í Kaupmannahöfn, stundaði hjúkrunarnám, og brautskráðist 24 ára frá hjúkrunarskóla Kommune-spítalans í Esbjerg. Hún vann síðan m.a. á röntgendeild Bispebjergs-spítalans, á Finsens Institut og við Röntgenstofnunina í Reykjavík, starfaði í Valpariso í Chile í þrjú ár, stundaði nám við Bedford College í London, var við einkahjúkrun í New York og fjögur ár Rauða kross systir vítt og breitt um Ísland.



Kristín var ráðin fyrsta yfirhjúkrunarkona Landspítalans 1931, fyrsti skólastjóri Hjúkrunarkvennaskóla Íslands við stofnun 1931 og aðalkennari hans. Hún var einn stofnenda Félags íslenskra hjúkrunarkvenna og sat þar í fyrstu stjórn. Hún var, ásamt frú Sigríði Eiríksdóttur, móður Vigdísar Finnbogadóttur, brautryðjandi í hjúkrun hér á landi enda voru þær báðar sæmdar Florence Nightingale orðunni (heiðursmerki alþjóða Rauða krossins) og riddarakrossi Fálkaorðunnar.



Kristín Ó Thoroddsen lést þann 28. febrúar 1961.



Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA