Jarðgangaáætlun: fyrsti kostur eru þrenn göng

Niðurstaða sveitarfélaganna á Vestfjörðum um næsta jarðgöng er sú að fyrsti kostur eru þrenn göng sem tengja saman atvinnusvæði á norðanverðum vestfjörðum annars vegar og á sunnanverðum Vestfjörðum hins vegar.

Á norðanverðum Vestfjörðum eru það Álftafjarðargöng, lengri útgáfan og á sunnanverðum Vestfjörðum eru það göng í gegnum fjallvegina Mikladal og Hálfdán sem eru frá Patreksfirði til Bíldudals um Tálknafjörð.

Þessi niðurstaða er fengin eftir svör frá 7 sveitarfélögum á Vestfjörðum, frá Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppi, Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhreppi, Kaldrananeshreppi, Strandabyggð og Reykhólahreppi. Svör bárust ekki frá Árneshreppi og Bolungavík.

Þetta kemur fram í fundargerð samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 1. mars sem hefur verið birt. Vestfjarðastofa hefur annast framkvæmt könnunar á viðhorfum sveitarfélaganna og lagði hún fram sem vinnuskjal jarðgangáaætlun sem fyrrverandi Vegamálastjóri tók saman. Haldnir voru þrír fjarfundir 18. og 19. janúar með sveitarstjórnunum til kynningar. Sveitarstjórninar ræddu síða skjalið hver á sínum vettvangi og sendu Vestfjarðastofu álit sitt. Skjalið hefur ekki verið birt.

Það var niðurstaða samgöngunefndar á fundinum 1. mars að óska eftir stuðningi stjórnvalda við gerð félagshagfræðilegrar greiningar á áhrifum á tilgreindum jarðgangakostum innan atvinnusvæðanna á norðanverðum og á sunnanverðum Vestfjörðum. Eins verði gerð félagshagfræðileg greining á samanlögðum áhrifum jarðgangaframkvæmda fyrir Vestfirði í heild.

Þá kemur fram í bókun samgöngunefndarinnar að fyrirséð er að umferð um Klettháls og um Breiðadals og Botnsheiðargöng, muni aukast verulega þegar þeirri framkvæmdum á Vestfjarðavegi 60 verður lokið árið 2025. Vill nefndin að tryggt verði fjármagn í samgönguáætlun 2022- 2037 til nauðsynlegra endurbóta á jarðgöngum og aukinnar vetrarþjónustu svo tryggja megi umferð meginhluta sólarhringsins á fjallvegum.

Jarðgöng um Kleifaheiði, Dynjandisheiði (Kollagötugöng) og Dynjandisheiði (Geirþjófsfjörður-Dynjandisvogur) verði skoðuð síðar.

Alls voru settar fram hugmyndir um 8 jarðgöng í fyrrgreindri jarðgangaáætlun, þar af voru kynntir tveir möguleikar um Álftafjarðargöng.

Að þessari niðurstöðu fenginni verður lokið við vinnskjalið jarðgangaáætlun fyrir Vestfirði. Litið verið á greinargerðina sem hluta af Innviðaáætlun fyrir Vestfirði.

Segir í niðurstöðu samgöngunefndarinnar að Jarðgangaáætlun fyrir Vestfirði komi til endurskoðunar þegar niðurstöður félagshagfræðigreiningar liggja fyrir. Litið verður á skjalið sem áfangaskýrslu inn í umræðu um jarðgangaframkvæmdir á Íslandi.

DEILA