Ísafjörður: Tillaga um að forstöðumaður skíðasvæðisins sjái einnig um golfvöllinn í Tungudal

Af golfvellinum í Tungudal. Mynd: Benedikt Hermannsson.

Hinn nýráðni sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Hafdís Gunnarsdóttir er þegar farnn að láta til sín taka. Í minnisblaði leggur hún til að orðið verði við erindi Golfklúbbs Ísafjarðar þess efnis að samnýta starfsmanninn sem sinnir forstöðumennsku á skíðasvæði Ísafjarðarbæjar og vallastjórann á golfvellinum í Tungudal. Þannig hefði forstöðumaður skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar yfirumsjón með golfvellinum í Tungudal.

Í verkefnasamningi Golfklúbbsins við HSV er kveðið á um að golfklúbburinn hafi umsjón með golfvellinum í Tungudal, sjái um nauðsynlegt viðhald á vellinum s.s. slátt, vökvun og áburðagjöf. Jafnframt að hann sjái um slátt og aðra umhirðu á púttvellinum á Torfnesi. Í staðinn fær Golfklúbburinn rekstrarstyrk, eitt stöðugildi í 5 mánuði, greiddan frá Ísafjarðarbæ. Einnig fá þeir unglinga frá Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar til aðstoðar við umhirðu vallanna þær vikur sem hann starfar. Greiðslur Ísafjarðarbæjar vegna þessa verkefnasamnings voru árið 2020 kr. 2.139.933. Ef forstöðumaður skíðasvæðisins fengi yfirumsjón með golfvellinum myndi verkefnasamningurinn falla úr gildi.

Í minnisblaði Hafdísar kemur fram að það sé mat núverandi forstöðumanns skíðasvæðisins að skynsamlegt sé að fara þessa leið. Unnt sé að bæta við sumarverkefni á skíðasvæðinu án þess að þurfa bæta við stöðugildi og þannig fá
betri nýtingu á starfsmönnum.

Íþrótta- og tómstundanefnd telur hugmyndina áhugaverða. Aftur á móti telur hún að skilgreina þurfi nánar verkefni og umfang svo liggi ljóst fyrir að forstöðumaður anni bæði heilsársnotkun skíðasvæðis og svo golfvelli.

Málið gengur nú til bæjarráðs.

DEILA