Innheimtustofnun Ísafirði: sameiningaráform í salt

Í janúar á þessu ári var undirrituð viljayfirlýsing milli sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins um að leggja niður Innheimtustofnun sveitarfélaga og færa verekfni hennar til Tryggingarstofnunar ríkisins. Skyldu lagafrumvörp vera lögð fram á Alþingi í janúar og afgreidd fyrir vorið. Breytingin tæki svo gildi 1. júlí. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur þrýst á um þessa breytingu þar sem Innheimtustofnunin er rekin á ábyrgð sveitarfélaganna og þau hafa viljað losna undan henni.

Í byrjun febrúar greindi Bæjarins besta frá því að starfsmenn Innheimtustofnnunar hefðu sent bréf til sveitarstjórnarmálaráðherra þar sem verklaginu var mótmælt. Starfsmenn óttast um framtíð útibúsins á Ísafirði eftir sameiningu við Tryggingarstofnun ríkisins og þá er óvissa um launakjörin eftir breytingu þar sem þau eru talin lægri hjá Tryggingarstofnunni en eru nú hjá Innheimtustofnuninni.

Nú hafa samband íslenskra sveitarfélaga og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og félagsmálaráðuneytið undirritað nýja viljayfirlýsingu þar sem segir að undirbúningur og ákvarðanataka verði unnin á lengri tíma en fyrri viljayfirlýsing gerði ráð fyrir.

Nú er gert ráð fyrir að greining og tillögur liggi fyrir eigi síðar en í desember 2021. Í framhaldinu verður yfirlýsingin endurskoðuð eins og við á, m.a. varðandi tímasetningar og verkþætti.

Meðal þess sem þarfnast nánari skoðunar er samkvæmt nýju yfirlýsingunni er:

núverandi skipulag og rekstur Innheimtustofnunar sveitarfélaga, fyrirkomulag innheimtu og kostnaður þar að lútandi,
hvort markmiðum um fjárhagslegan ávinning og aukinn árangur við innheimtu verði best náð hjá Tryggingarstofnun ríkisins, eða hvort aðrar stofnanir á vegum ríkisins væru betur til þess fallnar,
og mögulegar lagabreytingar, samhliða tillögum um breytta verkaskiptingu, sem hafa það að markmiði að æskilegum árangri verði náð við innheimtu meðlaga.

Er því ljóst að ekkert gerist fyrir alþingiskosningar eins og áður var að stefnt.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur fyrir sitt leyti samþykkt þessa breytingu.

DEILA