Bátasmíði í Hnífsdal

Í bílskúr í Hnífsdal smíðar Ingvar Friðbjörn Sveinsson, sem í daglegu tali er kallaður Ingi Bjössi, skipslíkön sem vakið hafa verðskuldaða athygli. Hann hóf þessar smíðar eftir að hafa verið í 45 ár á sjó.

Í fyrra og hittið fyrra smíðaði hann á sjö mánuðum líkan af togaranum Caesar H226 sem vakti verulega athygli fyrir nákvæm vinnubrögð og það hve vel tókst að ná fram útliti skipsins.

Í framhaldi af því hóf hann smíði á tveimur togurum þekktum úr útgerðarsögu Ísafjarðar, en það eru togararnir Sólborg ÍS 260 sem smíðaður var árið 1951 og Guðmundur Júní ÍS 20 en hann hét áður Júpíter og var smíðaður árið 1925.

Auk þess að smíða þessi skip af nákvæmni  hefur Ingi Bjössi viðað að sér miklum fróðleik um sögu þessara skipa.

Hvað um skipin verður er ekki alveg ljóst en vitaskuld þyrfti að koma þeim þar fyrir að sem flestir gætu skoðað þessa völundarsmíði.

DEILA