Vesturbyggð: umboðsmaður Alþingis gerir athugasemdir við ráðningu aðalbókara

Kjartan Bjarni Björgvinsson settur umboðsmaður Alþingis, sem fékk til athugunar kvörtun umsækjanda um starf aðalbókara á bæjarskrifstofunni í Vesturbyggð, segir í niðurstöðu sinni að sveitarfélagið hafi ekki sýnt fram á að meðferð málsins hefði verið í samræmi við lög. Sviðsstjóri hefði komið að málinu sem hefði ekki átt að gera það. Þá hefði umsækjanda ranglega verið leiðbeint um að hægt væri að kæra ákvörðun um synjun á gögnum ráðningarmálsins til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Settur umboðsmaður beinir þeim tilmælum til sveitarfélagsins að leita leiða til að rétta umsækjanda og að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu. Að öðru leyti yrði það að vera verkefni dómstóla að meta réttaráhrif framangreinds annmarka á meðferð sveitarfélagsins á málinu ef umsækjandi kysi að fara með málið þá leið.

Málsatvik eru þau að  gerð var athugasemd við aðkomu sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs sveitarfélagsins að ráðningarmálinu sem umsækjandi taldi vanhæfan vegna tengsla við þann umsækjanda sem ráðinn var. Eiginmaður sviðsstjórans og umsækjandinn, sem var ráðinn, eru systkinabörn og sviðsstjórinn var yfirmaður í fyrra starfi umsækjandans hjá sveitarfélaginu.  

Sviðsstjórinn vakti athygli á því að best færi á að hann kæmi ekki að ráðningarferlinu og mat bæjarstjóra var einnig verið að svo væri. 

Bæjarstjórinn tók ákvörðun um ráðninguna en sviðsstjórinn sat, þrátt fyrir eigið mat á vanhæfni, viðtöl sem ráðgjafi ráðningarfyrirtækis tók við umsækjendur og spurði spurninga er lutu að sérþekkingu á starfinu. Sviðsstjórinn spurði fjögurra spurninga af um það bil 30 í viðtalinu og svaraði fyrirspurnum sem umsækjendur beindu til hans.

Afstaða sviðsstjóra mótaðist af tengslum við umsækjanda

Álit setts umboðsmanns er að þau fjölskyldutengsl sem um ræddi milli sviðsstjórans og þess umsækjanda sem ráðinn var gætu ekki ein og sér leitt til vanhæfis sviðsstjórans á grundvelli sveitarstjórnarlaga. Aftur á móti reyndi á hvort tengslin hefðu verið þess eðlis að almennt mætti ætla að viljaafstaða sviðsstjórans mótaðist að einhverju leyti þar af.

Niðurstaða setts umboðsmanns var að með réttu hafi mátt ætla að viljaafstaða sviðsstjórans mótaðist að einhverju leyti af tengslum hans við hinn umsækjandann um starfið. Sviðsstjórinn hefði því ekki mátt taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn ráðningarmálsins heldur hefði bæjarstjóra borið að fela öðrum starfsmanni að koma að ráðningarferlinu og sitja viðtöl með ráðningarfyrirtækinu.

Umsækjendunum tveimur var tilkynnt um ráðninguna 24. janúar 2020.

Viðræður hafnar við umsækjandann sem kvartaði

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að „þau sjónarmið sem koma fram í áliti umboðsmanns Alþingis eru ákaflega mikilvæg til að lagfæra og skýra ákveðna verkþætti þegar kemur að málsmeðferð ráðningamála hjá sveitarfélaginu og er álitið því gott gagn til að gera enn betur þegar kemur að málsmeðferð ráðningamála. Vegna þeirra formgalla sem voru á málsmeðferðinni og lýst er í áliti umboðsmanns sem og í framhaldi af tilmælum umboðsmanns Alþingis um að rétta hlut þess umsækjanda sem ekki var ráðinn, er af frumkvæði sveitafélagsins nú hafið samtal við viðkomandi einstakling, en niðurstaða úr því samtali liggur enn ekki fyrir.“

Svar Rebekku Hilmarsdóttur bæjarstjóra Vesturbyggðar í heild:

„Athugun umboðsmanns Alþingis laut í upphafi að mati sveitarfélagsins á hæfni umsækjenda til að gegna 50% starfi aðalbókara og einnig því hver aðkoma sviðsstjóra hefði verið að ráðningaferlinu. Umboðsmaður afmarkaði athugun sína á aðkomu sviðsstjóra að ráðningaferlinu en ekki á mati á hæfni umsækjenda og gerði ekki athugasemdir við það. Vegna tengsla við báða umsækjendur, sem ekki er óalgengt í litlum sveitarfélögum að geti komið upp, var ráðningafyrirtæki fengið til að vinna hæfnismat umsækjenda, án aðkomu sveitarfélagsins og aðstoða sveitarfélagið við ráðningaferlið.  Þrátt fyrir að sviðsstjóri hafi ekki talist vanhæfur á grundvelli sveitarstjórnarlaga, þá var það niðurstaða umboðsmanns Alþingis að þar sem óheppilegt hafi verið talið á fyrstu stigum málsins að sviðsstjóri kæmi að ráðningaferlinu, að hann hafi verið vanhæfur til að sitja ráðningaviðtölin. Í niðurstöðu álitsins telur umboðsmaður ólíklegt að framangreindir formgallar málsins leiði til ógildingar á ráðningunni. Þau sjónarmið sem koma fram í áliti umboðsmanns Alþingis eru ákaflega mikilvæg til að lagfæra og skýra ákveðna verkþætti þegar kemur að málsmeðferð ráðningamála hjá sveitarfélaginu og er álitið því gott gagn til að gera enn betur þegar kemur að málsmeðferð ráðningamála. Vegna þeirra formgalla sem voru á málsmeðferðinni og lýst er í áliti umboðsmanns sem og í framhaldi af tilmælum umboðsmanns Alþingis um að rétta hlut þess umsækjanda sem ekki var ráðinn, er af frumkvæði sveitafélagsins nú hafið samtal við viðkomandi einstakling, en niðurstaða úr því samtali liggur enn ekki fyrir.“