Vesturbyggð fær styrk til að kanna sameiningu við Tálknafjörð

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur veitt Vesturbyggð styrk allt að 3 m.kr. til þess að greina hagkvæmni sameininga sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum.

Rebekka Hilmarsdóttir,bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að í verkefninu felist að greina hver samlegðaráhrif og rekstrarhagkvæmni verði fyrir íbúa og atvinnulíf. Hver áhrif uppbyggingu innviða á svæðinu verði fyrir sameinað sveitarfélag og einnig verða mótaðar tillögur að næstu skrefum. „Markmið verkefnisins er að veita íbúum í Vesturbyggð og bæjarstjórn forsendur til að taka afstöðu til sameiningu sveitarfélaga með því að greina styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri Vesturbyggðar, ef til sameiningar sveitarfélaga kemur. Afurð verkefnisins er skýrsla um niðurstöður greiningarinnar.“

Rebekka staðfestir að sameiningin sem til athugunar er sé sameining Vesturbyggðar og Tálknafjarðar. Tálknafjörður er ekki aðili að verkefninu.

Tvö tilboð bárust í verkefnið, frá RR ráðgjöf 2,2 m.kr. + vsk. og KPMG 2,9-3,5 m. kr. + vsk. Samþykkt var að taka tilboðinu frá RR ráðgjöf.