Umkringdir sóttarbæir og bikaðar líkkistur – Sóttvarnareglur í „den“

Það var ekki fyrst árið 2020 sem íslensk stjórnvöld gripu til harðra sóttvarnareglna til að sporna við útbreiðslu faraldurs.

Bólusóttarfaraldrar, rétt eins og fjöldi annarra sjúkdómsfaraldra, gengu ítrekað á Íslandi í gegnum aldirnar. Í byrjun 18. aldar dóu til að mynda 25% þjóðarinnar úr bólusótt.

Upphaf bólusetninga með bóluefni má rekja til loka 18. aldar, þegar enski læknirinn Edward Jenner tók eftir að mjaltakonur virtust ónæmar fyrir bólusótt. Í framhaldi fann hann upp bóluefni og útbreiðsla þess varð tiltölulega hröð um Evrópu.

Árið 1802 var öllum Íslendingum gert skylt að láta bólusetja sig, bólusetning varð s.s. ekki valkvæð. Ísland varð svo fyrst landa til að útrýma bólusótt, árið 1872, og fyrir upphaf 20. aldarinnar voru það einungis Svíþjóð og Noregur sem einnig náðu þeim árangri. Það var svo ekki fyrr en 1980 að tilkynnt var að tekist hefði að útrýma bólusótt í heiminum.

Í byrjun 19. aldar geisaði enn einn bólusóttarfaraldurinn í Evrópu. Árið 1809 var birt hér á landi konungstilskipun frá Friðriki áttunda til þegna sinna. Þar koma skýrt fram áhyggjur yfirvalda og gremja yfir því að sumir hunsi það að láta bólusetja sig, gangi jafnvel það langt að dylja veikindi á heimilum sínum og stefni þannig heilsu og lífi annarra í hættu. Í framhaldi eru upplistaðar ítarlegar reglur sem fólki sé skylt að fylgja til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins. Tilskipunin var birt mjög víða á og í opinberum og öðrum byggingum og var þannig ætlað að ná til sem flestra landsmanna. Hún var undirrituð af Magnúsi Stephensen, þá settum stiftamtmanni á Íslandi í fjarveru Trampe greifa sem Jörgen Jörgensen (Jörundur hundadagakonungur) hafði rekið til síns heima. Eintak þessa plaggs er að finna meðal lækningaminja í Þjóðminjasafninu og hefst svo: 

          Opid Bref, áhrærandi ad til kynna skuli gefa, þá fyrst verdur vart vid náttúrlega Bólu og adra næma Sjúkdóma.

          Vjer Frederik hinn Sjøtti, af Guds

          Nád Konungur til Danmerkur og Norvegs, Vinda og Gauta, Hertogi i Slesvik, Holsetulandi, Stormæri, Pettmerski og         
          Aldinborg. Gjørum vitanlegt:   

               Jafnvel þó Vaccinationen edur Kýrbólu-setníng hafi nú um ecki allfá undanfarin Ar, álitin verid sem áreidanlegt Medal, til ad 
               koma í Veg fyrir þá náttúrlegu Bólu, og þessvegna verid krøptuglega framfylgt í Vorum Ríkjum og Løndum; svo høfum Vér 
               þó, med Angri, mátt þess varir verda, ad sumir ecki einúngis hafa forsomad ad nota þetta heilsusamlega Medal, til Frelsis fyrir 
               sjálfa þá og þeirra Børn, heldur jafnvel sett þad til sídu, er þeir vóru Almenníngs Nytsemi skyldir um, med því að dylja þau 
               fyrstu Utbrot náttúrlegrar Bolu á Heimilisfólki þeirra, og þannig ad stofna ødrum í Hættu. Vér høfum þessvegna álitid Oss 
               knúda til, ad áqvarda Þvíngunar-medøl fyrir þá, er gleyma því, sem þeir í því Tilliti eru sjálfum sér og ødrum skyldir um, og 
               náqvæmlegar hérum að áqvarda Bodord
 Tilskipunarinnar af 17da Apr. 1782, fyrir Danmørk, hvør einnig skipad er, þann 5ta 
               Sept. 1794, ad gylda skuli í Norvegi, til þess ad hennar mikilvæga Tilgángi verdi þess óhultar nád, og Utbreidsla næmra 
               Sjúkdóma í bádum Ríkjunum fyribygd. Þess vegna áqvørdum og skipum Vér allramildilegst: 
[…]

Þar á eftir er m.a. kveðið á um að hver sá sem hunsi það að tilkynna veikindi á heimili sínu til prests eða læknis skuli gangast „undir Sektir af 8ta Daga Fángelsi vid Vatn og Braud, inntil 3gja Mánada ervidis í Forbetrunar-húsi“ og að „einn og sérhvørr í þeim Húsum, hvar vart verdur vid þá náttúrlegu Bólu, skulu vera skyldir til ad láta tafarlaust setja sér Kýrbólu, ef enginn veit til Vissu ad þeir ádur haft hafi annadhvørt þá náttúrlegu edur settu Bólu, ellegar Kýrbóluna.“

Undir tilskipunina er svo ritað:

               Utgéfid í Vorum konúnglega Adseturstad Kaupmannahøfn, þann 27da Maji
              1808.            
FREDERIK R.

Þar neðan við er svo nánari útlistun á reglum um hegðun og viðbrögð fólks er sjúkdómar herja á og hvernig haga skuli umbúnaði og meðferð á þeim sem látast úr sjúkdómum:

               1. Art. Sérhvørr Bóndi, í hvørs Húsi uppkoma skjædar og næmar Sóttir, svo sem: Blódsótt, Fleckusótt, eda ønnur hættuleg 
               Sótt, sem dreifir sér út í Húsinu og reynist næm, skal, eda sé Bóndinn ecki vid, þá Fólk hans eda nærstu Grannar, strax géfa
               þetta Sóknarprestinum til kynna.

               5. Art. Þeir, sem í Húsinu eru hjá þeim sjúku og þurfa þeim til Adhjúkrunar, ega med Alúd ad gæta þess, ad Læknismedøl séu 
               náqvæmlega brúkud, og Fyriskrift Lækna þarum fylgt, og má enginn Ovidkomandi koma til Sjúklinganna; Sorgar- og adrar 
               Almúga-Samkomur þar, ega fyrirbodnar ad vera á medan Sóttin vidheldst.

                6. Art. Þeir, sem deya af þessháttar skjædum Sóttum, skulu jardast ádur full 4 Dægur eru lidin frá því þeir deydu, í sama
               Fatnadi, sem þeir öndudust í; ega Líkkistur þeirra ad bikast innanverdt, en þeir grafast 4ra Alna djúpt undir Jørdu. Engin 
               Líkfylgd má leyfast vid þessháttar Greftranir, og einúngis þeir koma saman, sem naudsynlega vidþurfa til ad bera og jarda 
               Líkid.

               7. Art. Géti þessar Varúdar-reglur, náqvæmlega haldnar, samt ecki hindrad Utdreifíngu skjædra Sótta, má, þegar 
               Landlæknirinn álítur þad øldúngis naudsynlegt, gjøra þá Rádstøfun, sem best og hagqvæmast skéd gétur, ad Sóttar-bæirnir 
               verdi med Fólki umsetnir, til ad verja øllum Adkomu þángad og Burtfør þadan, hvar um Amtmadurinn þá gjørir alla
               naudynlega Rádstøfun.

                Ad Bodi ens konúnglega danska Cancellies, þann 3ja Júní 1808, á þetta konúnglega Opid Bréf ad uppfestast á allar Kirkju-
               dyr, 
øll Þínghús, vid Þíng og Almúga Samkomur, og á sérhvørja Krambúd á Landinu.
               Islands Stipt-Amts Contoiri, þann 10da Oktobr. 1809.
               M. Stephensen.

Freyja Hlíðkvist Ó. Sesseljudóttir
Joe W. Walser III

Af vefsíðu Þjóðminjasafns Íslands