Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynntu nýtt verkefni Tryggð byggð á fundi í Hofi, Akureyri síðdegis í gær, en það á að stuðla að stóraukinni uppbyggingu íbúðarhúsnæðis utan suðvesturhornsins. Um er að ræða samstarfsvettvang allra þeirra sem koma að húsnæðismálum á landsbyggðinni. Í gegnum Tryggða byggð verður bætt aðgengi að upplýsingum um sérstök landsbyggðarlán, stofnframlög og byggðaframlög, samstarf við opinbera leigufélagið Bríeti og stuðning sem HMS veitir á hönnunar- og undirbúningsstigi.
Fundurinn var vel sóttur af sveitarstjórnarfólki á Norðurlandi og fulltrúum byggingaraðila. Nýr vefur verkefnisins var jafnframt opnaður en þar má skoða á korti allar þær íbúðir sem eru í byggingu um landið með stuðningsúrræðum Tryggðar byggðar.
Þá var á fundinum kynnt ný skýrsla um þróun húsnæðismarkaðar utan suðvesturhornsins. Þar kemur fram að stöðnun hafi ríkt í húsnæðismálum landsbyggðarinnar á löngum köflum en að núverandi uppbyggingaráform, sem séu umtalsverð, megi meðal annars skýra með tilkomu nýrra stuðningskerfa ríkis og sveitarfélaga.
Í skýrslunni, sem unnin var af hagdeild Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), er fjallað um stöðu húsnæðismála á landsbyggðinni og hvernig aðgerðir stjórnvalda síðustu ár hafa. Húsnæðið sem fólk býr í utan suðvesturhornsins er mun eldra, eins og má sjá á meðfylgjandi mynd, en síðustu tvö ár hafa farið af stað framkvæmdir við yfir 400 íbúðir á landsbyggðinni og heildarfjárfesting vegna þessara verkefna er tæpir 10 milljarðar.