Tekjusagan: Eignastaða hjóna 71% hærri á höfuðborgarsvæðinu

Frá Reykjavík.

Eignastaða hjóna á höfuðborgarsvæðinu með 1-2 börn var árið 2019 71% hærri en á landsbyggðinni. Skuldlaus eign hjóna á höfuðborgarsvæðinu var þá 36 milljónir króna en aðeins 21 milljón króna á landsbyggðinni. Helsti munurinn kemur fram í fasteignamat eignanna. Á höfuðborgarsvæðinu var fasteignamatið að jafnaði 56 milljónir króna en 35 milljónir króna á landsbyggðinni. Þar munar 21 milljón króna.

Um áratugaskeið hefur íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði hækkað umfram verðlag og þannig hefur myndast eigið fé. Hækkunin á landsbyggðinni hefur verið minni og er að auki mjög breytileg eftir landssvæðum. Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði innan tilgreindra marka í lögum er skattfrjáls.

Þessar upplýsingar er að finna á upplýsingavef stjórnvalda tekjusagan.is.

Það var líka nokkur tekjumunur á hópunum eftir búsetu. Á höfuðborgarsvæðinu voru tekjur á árinu 2019 liðlega 1,3 milljónir króna á mánuði en 1,1 milljón króna á landsbyggðinni. Að teknu tilliti til skattgreiðslna voru ráðstöfunartekjur á höfuðborgarsvæðinu 966 þúsund krónur á mánuði en 855 þúsund krónur á landsbyggðinni.

DEILA