Þrír forsvarsmenn atvinnufyrirtækja á Suðureyri, Óðinn Gestson, Guðni Einarsson og Elías Guðmundsson, gengu á fund bæjarráðs Ísafjarðarbæjar á mánudaginn og fóru yfir innviðauppbyggingu og þjónustu í Súgandafirði. Segir í minnisblaði frá þeim til bæjarráðs að ástæða beiðni þeirra um fund sé sú tilfinning forsvarsmanna fyrirtækjanna að samfélagið á Suðureyri sé utanveltu í innviðauppbyggingu og þjónustu innan Ísafjarðarbæjar. Fyrirtækin eru Fiskvinnslan Íslandssaga hf, Fishermann ehf og Klofningur ehf.
Í erindi þeirra eru sjö tölusettir liðir þar sem nefnd eru ýmis málefni. Minnt er á sjó- og snjóflóð sem fallið hafa í Súgandafirði og í kjölfar þeirra hafi verið rætt um styrkingu á vörnum vegna þessarar hættu, en „ekkert hefur heyrst eða samkvæmt okkar vitneskju gerst síðan menn ræddu það að bregðast við ástandinu. Skráningu snjó og sjóflóða
hefur verulega ábótavant í Súgandafirði í gegnum árin.“
Þá er greint frá því að verulegur skortur sé á húsnæði á Suðureyri , skipulagsmál fari í gegnum bæjarkerfið á Teigskógshraða sem er að „helst að gera ekki neitt og tefja mál, þetta er amk upplifun okkar sem að stöndum í þessum rekstri á Suðureyri.“ Veginn út fjörðinn til Staðardals undir Spilli þurfi að hafa betur opinn vegna vinnusóknar og loks er spurst fyrir um rekstur Vatnsveitu Suðureyrar.
Kvartað undan embætti hafnarstjóra
Kvartað er undan embætti Hafnarstjóra sem hafi „hallað máli Súgandafjarðar með vafasamri upplýsingagjöf til Skemmtiferðaskipa sem gjarnan vilja taka land í Súgandafirði. Þá hefur embætti Hafnarstjóra fullyrt við laxeldisfyrirtæki sem skoðuðu uppbyggingu á sláturhúsi í Súgandafirði að ekki væri hægt að tryggja nægjanlegt dýpi með dýpkun og hefur líkt því við Landeyjarhöfn.“ Þá segir að ósk hafi verið sett fram um staðarvalsgreiningu vegna uppbyggingar á starfsemi laxeldisfyrirtækja, en „samkvæmt okkar heimildum er í þeirri greiningu ekki minnst á Súgandafjörð sem kost, þrátt fyrir að Ísafjarðarbær sé aðili að samkomulagi við eitt þeirra fyrirtækja sem óskar eftir þessu samtali.“
Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs er vikið að þessum atriðum og þeim svarað. Þar kemur fram varðandi staðarvalsgreininguna fyrir laxasláturhúsið að hjá Ísafjarðarbæ hafi ekki verið unnin staðarvalsgreining fyrir fiskeldisfyrirtæki, það sé í höndum fyrirtækjanna sjálfra að átta sig á kostum og göllum þeirra staða sem koma til greina og henta þeirra rekstri. Umkvörtunum varðandi embætti hafnarstjóra er vísað til hans til svara.
Varðandi húsnæðismálin segir að starfsmenn Ísafjarðarbæjar séu að móta reglur sem m.t.t. laga um almennar Íbúðir nr. 52/2016 vegna stofnframlaga, til að auka aðgang að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu.
Um vatnsveituna segir í minniblaðinu að leggja þurfi nýja aðveitulögn ef vatnsfrekur iðnaður verður settur upp á Suðureyri og jafnvel að fjölga vatnslindum í Sunddal. Helstu stórnotendur eru Klofningur 8 l/sek og Íslandssaga 3 l/sek
Á vormánuðum er áætlað að endurnýja vatnslögn inn í Staðardal og er efni í pöntun. Ekki er hægt að bæta við
stórnotendum á Suðureyri nema með því að bæta við vatnslindum og jafnvel að svera aðveitulögnina.
Bæjarstjóra var falið að vinna málið áfram.