Suðureyri: þróunarverkefni í íslensku fyrir erlenda nemendur verði áfram

Grunnskólinn á Suðureyri. Mynd: Isafjördur.is

Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar leggur til að haldið verði áfram með þróunarverkefni sem Grunnskólinn á Suðureyri hefur unnið í vetur og fékk haustið 2020 úthlutað auka stöðugildi.
Verkefnið snýst um það að efla kennslu í íslensku til að auka möguleika nemenda af erlendum uppruna á að standa jafnfætis öðrum íslenskum börnum þegar í framhaldsskóla er komið.

Skólinn fékk úthlutað 7,5 kennslustundum á viku umfram það sem venjubundin áætlun gerir ráð fyrir. Þessar stundir hafa verið notaðar til þess að vinna sérstaklega með lestur og orðaforða í tengslum við þróunarverkefni sem skólinn og Leikskólinn vinna saman að og heitir ,,Náum betri árangri saman”.

Verkefnið snýst um að auka orðaforða nemenda og bæta möguleika foreldra á að styrkja orðaforða og málskilning á heimilum.

Skólastjóri Grunnskólans á Suðureyri er Jóna Benediktsdóttir.

DEILA