Súðavík: fagna leyfinu fyrir kalkþörungaverksmiðjuna

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps segist fagna heilshugar því að Orkustofnun hafi gefið út námalyfi fyrir Íslenska kalkþörungafélagið ehf til þess að sækja og vinna kalkþörunga af hafsbotni í Ísafjarðardjúpi.

Hér er mikilvægum áfanga lokið í einhverju sem hófst með viljayfirlýsingu í nóvember 2014 segir Bragi Þór. „Það eru komin rétt 6 og hálft ár frá því aðilar voru sammála um að byggja verksmiðju í Álftafirði. Síðan hefur heilmikið gerst en ekki á þeim hraða sem aðilar væntanlega sáu fyrir sér í fyrstu. Skipulagsmál þar fyrirferðamest.“

Um framhaldið sagði Bragi Þór:

„Líkt og Halldór Halldórsson framkvæmdastjóri víkur að í gær, í frétt um nýtingarleyfið lægi fyrir, þá höfum við í Súðavíkurhreppi verið að setja saman fyrstu drög að samningi milli aðila. Það er svo smekksatriði hvort skerpt verður á viljayfirlýsingu áður en samið er, en hefur auðvitað þýðingu út í samfélagið.

Ljóst er að framkvæmdir þurfa að fara að raungerast í að klára landfyllingu, fyrirstöðukant og hönnun hafnarinnar. Er það enda sá partur sem snýr að sveitarfélaginu og ríkinu. Ég raunar bíð spenntur eftir því hvernig þokast með rafmagnsmálin. Það kemur í ljós hver raunverulegur vilji er til þess að efla atvinnu á norðanverðum Vestjförðum og koma af stað örlítilli viðspyrnu til hagsælda fyrir samfélagið allt.

En þetta er að sjálfsögðu mikilvægur kafli í því að koma þessu á framkvæmdastig.“

DEILA