Strandabyggð fær 30 m.kr. úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Í gær var undirritað samkomulag milli sveitarfélagsins Strandabyggðar og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins til að unnt verði að ná jafnvægi í rekstri og standast fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnarlaga. Samkomulagið kveður einnig á um 30 milljóna kr. framlag til Strandabyggðar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Greint er frá þessu á vefsíðu ráðuneytisins.

Ráðuneytið veitti á síðasta ári fjárframlag til að vinna greiningu á fjármálum sveitarfélagsins. Í skýrslu KPMG, sem kynnt var sveitarstjórn í desember 2020, kom fram að venjubundinn rekstur standi ekki undir skuldbindingum sveitarfélagsins og verulegur halli væri fyrirséður á rekstri sveitarfélagsins. Í byrjun mars óskaði sveitarstjórn Strandabyggðar eftir að gera samkomulag við ráðuneytið um fjármál sveitarfélagsins, á grunni heimildar í 83. gr. sveitarstjórnarlaga. Í lögbundinni umsögn eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga var mælt með því samkomulagið yrði gert.

Sveitarstjórn Strandabyggðar mun samkvæmt samkomulaginu ráða óháðan ráðgjafa sem vinnur með sveitarstjóra og starfsmönnum sveitarfélagsins að fjárhagslegri greiningu og markmiðasetningu. Sveitarstjórnin skuldbindur sig einnig til að vinna að hagræðingu í rekstri og draga úr rekstrarútgjöldum eins og kostur er, jafnframt því sem leitast verður við að auka tekjur. Þá er í samkomulaginu gert ráð fyrir að unnin verði úttekt á kostum sameiningar við önnur sveitarfélög og fjárhagsleg áhrif sameiningar.

Jón Gísli Jónsson, oddviti Strandabyggðar, undirritaði samkomulagið fyrir hönd sveitarfélagsins, en með honum fyrir hönd Strandabyggðar var einnig Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri. „Við þökkum ráðherra og starfsfólki hans stuðninginn og lítum á samninginn sem tækifæri fyrir sveitarfélagið til að rýna í innviðina og ná þannig betur utan um fjármál okkar og markmiðasetningu í þeim efnum“ sagði Jón Gísli að undirskrift lokinni.

„Það eru mörg tækifæri í þessu sambandi, sem við munum skoða, og eins og ráðherra benti réttilega á, gæti þarna verið möguleikar fyrir okkur á að sækja í störf án staðsetningar,“ bætti Þorgeir við. „Það er lykilatriði, til lengri tíma litið, að efla atvinnustarfsemi sveitarfélagsins og fjölga þannig tekjustofnum þess,“ sagði Þorgeir að lokum.