Sótt um stofnframlög fyrir 48 leiguíbúðir á Vestfjörðum

Mikil eftirspurn er eftir fjárstuðningi ríkisins til reksturs hagkvæmra leiguíbúða, svokallaðra almennra íbúða. Frestur rann út þann 22. febrúar og alls bárust umsóknir um stofnframlög til byggingar eða kaupa á 472 almennum íbúðum fyrir alls 4.006.570.097 kr. til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem veitir stofnframlögin. Til úthlutunar að þessu sinni eru allt að 3,4 milljarðar og munu sérfræðingar HMS meta hvaða umsóknir fá brautargengi að þessu sinni.

Mun fjölga leiguíbúðum um allt land – mikið af nýbyggingum á landsbyggðinni
Alls bárust umsóknir um 29 verkefni frá 13 umsækjendum. Sótt var um stofnframlög til byggingar á 235 íbúðum, kaupa á 220 íbúðum og til breytinga á húsnæði í eigu sveitarfélags fyrir 17 íbúðir. Alls er sótt um stofnframlög í 15 sveitarfélögum um land allt en flestar íbúðirnar eiga að vera á höfuðborgarsvæðinu.

Leiguíbúðir fyrir námsmenn, tekjulága á vinnumarkaði, fatlaða, aldraða og öryrkja
Íbúðirnar 472 sem sótt var um stofnframlög vegna skiptast niður í flokka. Umsækjendur um stofnframlögin áætla að byggja eða festa kaup á 164 íbúðum ætlaðar leigjendum undir tekju- og eignamörkum, 26 íbúðum fyrir námsmenn, 121 félagslegri íbúð á vegum sveitarfélaga, 113 íbúðum fyrir öryrkja og fatlaða, 38 íbúðum til byggingar sértækra búsetuúrræða og 10 íbúðum fyrir aldraða.

Sótt um fyrir 48 íbúðir á vestfjörðum

það var sótt um vegna 36 íbúða í sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ og 12 íbúða í Bolungarvíkurkaupstað. samkvæmt upplýsingum frá HMS. Sundurliðast þær þannig að 22 íbúðir eru fyrir tekju- og eignalága á vinnumarkaði og 26 íbúðir fyrir námsmenn.