Skólar loka, nema leikskólar

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að grípa til sóttvarnaraðgerða sem takmarka grunn-, framhalds- og háskólastarf frá og með fimmtudeginum 25. mars til og með 31. mars.

Ákvörðunin er tekin vegna sterkra vísbendinga um aukið Covid-19 samfélagssmit af völdum veiruafbrigðis, sem er líklegra en önnur til að valda veikindum meðal barna og ungmenna.

Staðnám í grunn,- framhalds- og háskólum verður óheimilt, en skólum í sjálfsvald sett hvort fjarnám komi í staðinn fram að páskafríi eða skólahald verði fellt niður. Tónlistarskólar verða lokaðir.

Leikskólar mega starfa með 2 metra nálægðartakmörkunum milli starfsfólks. Ekki skulu fleiri en 10 fullorðnir einstaklingar vera í hverju rými. Viðvera foreldra innan leikskólabygginga er takmörkuð.

Ákvörðunin er tekin á grundvelli minnisblaðs Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis frá 24. mars.