Skíðamaður setti af stað snjóflóð í Búðarhyrnu við Hnífsdal

Rétt fyrir kl. 19:00 í gær, mánudag, setti skíðamaður af stað snjóflóð í Búðarhyrnu við Hnífsdal.

Gott veður var þegar flóðið féll en töluverður snjór hefur safnast fyrir í giljum eftir N og NA hríð síðustu daga.

Lögreglan var kölluð út, þegar að tilkynnt var um snjóflóðið en sjónarvottar sáu til manns sem hafði verið á ferð í gilinu, þar sem snjóflóðið hreyf hann með sér niður hlíðina.

Hjálparlið var ræst út á hæðsta forgangi. Skíðamanninn sakaði ekki og komst hann af sjálfsdáðum út úr flóðinu þar sem hann var með útbúnað og náði að sprengja út snjóflóðabakpoka sem hann hafði á sér og flaut því efst á flóðinu.

Ofanflóðavakt Veðurstofunnar vill benda fólki að fara varlega til fjalla, sérstaklega í S og V vísandi hlíðum og að notast við réttan öryggisbúnað ásamt því að fylgjast með upplýsingum og snjóflóðaspá á vedur.is

DEILA