Samfylking: Valgarður býður sig fram í fyrsta sæti

Valgarður Lyngdal Jónsson, grunnskólakennari á Akranesi og forseti bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar hefur tilkynnt framboð sitt í fyrsta sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar 2021.

Hann tók sæti í bæjarstjórn eftir kosningarnar 2014 og tók við oddvitasæti listans fyrir kosningarnar 2018. Í þeim kosningum fékk Samfylkingin ríflega 30% atkvæða á Akranesi, þrjá menn kjörna í bæjarstjórn og hefur starfað í meirihluta á yfirstandandi kjörtímabili ásamt Framsókn og frjálsum.

Um málefnin segir Valgarður:

„Sem jafnaðarmaður vil ég leggja mitt af mörkum til að stuðla að jöfnum aðgangi allra að þeim lífsgæðum sem samfélagið okkar hefur að bjóða. Í hinu víðfeðma Norðvesturkjördæmi er víða verk að vinna svo þetta markmið megi nást. Þar má nefna löngu tímabæra nútímavæðingu vegakerfisins og jafnt aðgengi að öruggum fjarskiptum og orku svo atvinnulíf megi þróast og dafna. Víða um kjördæmið hefur stórgallað fiskveiðistjórnunarkerfi unnið mikinn skaða og brýnt er að jafna þann aðstöðumun sem þar hefur skapast, auka möguleika á nýliðun og tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af sameiginlegri auðlind okkar. Fjölbreytt atvinnulíf er forsenda lífsgæða í okkar kjördæmi og þar skiptir stuðningur stjórnvalda höfuðmáli, að hlúð sé að vaxtarsprotum en ekki síður að gætt sé að rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja sem hér starfa. Sem dæmi má nefna að við eigum að líta á fyrirtæki í stóriðju sem okkar mikilvægustu samstarfsaðila við að draga úr kolefnisspori Íslands og styðja þau til góðra verka á því sviði.“

DEILA