Samband ísl sveitarfélaga dregur í land

Í umsögn sambands íslenskra sveitarfélaga við lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar um sameiningu sveitarfélaga er opnað á að falla frá ákvæðinu sem skyldar sameiningu ef íbúafjöldi er innan tiltekinna marka.

Upplýst er að á vettvangi stjórnarinnar hafa verið ræddar hugmyndir um að fyrirliggjandi viðmið um íbúafjölda sveitarfélaga verði óbreytt í frumvarpinu, en með þeirri breytingu að þær verði ekki lögskyldar.

Vilji íbúa ráði

„Þess í stað verði um að ræða lögbundin markmið sem vinna beri að og sveitarfélög þurfi að horfa til við framtíðarstefnumörkun sína. Ráðherra hefði þá áfram þá skyldu að vinna að sameiningum fámennra sveitarfélaga til að ná markmiðum um íbúafjölda, hafi sveitarfélög ekki sjálf frumkvæði að því. Á hinn bóginn yrði áfram að virða niðurstöðu kosninga íbúa hvers sveitarfélags um sameiningartillögur.“ segir í umsögninni.

Stjórnin hvetur til sátta

„Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur, í ljósi þess að mörg fámenn
sveitarfélög hafa lýst mikilli andstöðu við lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga, rætt um mögulegar leiðir til að ná meiri sátt um frumvarpið samfara því að efla sveitarstjórnarstigið“ segir í umsögninni.

Stjórnin hvetur umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til að skoða alla mögulega fleti til lausnar á málinu, í samvinnu við ráðherra sveitarstjórnarmála og í samráði við sambandið, þannig að unnt verði að afgreiða fyrirliggjandi frumvarp sem lög á yfirstandandi þingi.

Frumvarpið um lögþvingaða sameiningu var í upphafi lagt fram með stuðningi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem þá taldi nauðsynlegt að knýja fram sameiningu fámennra sveitarfélaga án tillits til afstöðu íbúa þeirra. Stefnt er að því að afgreiða frumvarpið fyrir lok þings í vor.