Ríkisstyrktar skærur gegn atvinnu- og innviðauppbyggingu

Styrkveitingar ráðherra eru sívinsælar hjá bæði ráðherrum og viðtakendum fjárins. Öðru máli kann að gegna um afstöðu skattgreiðenda. Nýverið úthlutaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, rekstrarstyrk til Landverndar að fjárhæð 14.280.000 kr. Guðmundur Ingi var framkvæmdastjóri Landverndar á árum 2011 til 2017 áður en hann varð umhverfisráðherra.

Rekstrargjöld Landverndar árið 2019 voru 125 milljón krónur. Þar af voru laun og tengd gjöld 31 milljón krónur. Önnur rekstrargjöld voru 47 milljón krónur. Styrkur umhverfisráðherra til almenns rekstrar Landverndar að fjárhæð 14 milljón krónur er 45% af launagjöldum félagsins miðað við árið 2019 og 30% af öðrum rekstrargjöldum félagsins. Hér má líka benda á að af 49 milljón krónum sem umhverfisráðherra úthlutaði nú úr ríkissjóði til 25 umhverfissamtaka rann langstærsti hlutinn til Landverndar eða 29%.

Landvernd eiga að heita frjáls og óháð félagssamtök en nærtækara væri að líta á félagið sem eins konar kærustofnun sem heyrir beint undir umhverfisráðherra. Ofsafengnar aðgerðir Landverndar gegn atvinnu- og innviðauppbyggingu víða um land eru vel þekktar. Ekkert er athugavert við þá starfshætti í raun og veru séu þeir innan ramma laga og reglna. Innan félagsins er fólk sem brennur fyrir umhverfis- og náttúrvernd og lýðræðislegur réttur þeirra til að láta til sín taka á opinberum vettvangi og tala fyrir sínum sjónarmiðum er skýr og ber að virða. 

En háar fjárveitingar umhverfisráðherra til félagsins ár eftir ár úr sameiginlegum sjóðum landsmanna vekja upp áleitnar spurningar um skynsamlega forgangsröðun á opinberu fé, jafnræði og gagnsæi.

Forgangsröðun og lögbundið hlutverk

Framlög til umhverfismála hafa stóraukist undanfarin ár og undir umhverfisráðuneytinu starfa 14 ríkisstofnanir á sviði umhverfismála, t.d. Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landgræðslan og Skógræktin. En til viðbótar úthlutar umhverfisráðherra sjálfur tugum milljóna árlega til að styrkja almennan rekstur umhverfissamtaka en þó aðallega Landverndar.

Krafa almennings um að hið opinbera sinni vel lögbundnum hlutverkum eins og á sviði heilbrigðisþjónustu, menntamála og velferðarkerfis er skiljanleg og réttmæt. Ólíklega hefur farið fram greining á því hvort þeim opinberu fjármunum sem varið er til styrktar almennum rekstri þessara félagssamtaka og annarra kunni að vera betur varið í lögbundin verkefni stjórnvalda en full þörf væri á þeirri umræðu við gerð fjárlaga.

Frjáls ráðstöfun

Stofnanir undir umhverfisráðuneytinu starfa samkvæmt lögum, hafa skilgreind lögmæt hlutverk og verkefni, þeim ber að fara að stjórnsýslulögum og um meðferð þeirra á opinberum fjármunum gilda sérstakar reglur og eftirlit haft með því, m.a. á vegum Ríkisendurskoðanda. Ekkert af þessu á við um ráðstöfun umhverfissamtaka á opinberum fjármunum umfram það sem fram kemur í almennum og mjög víðtækum úthlutunarreglum sem hvert ráðuneyti setur sér.

Í reglum umhverfisráðuneytisins er eina fjárhagslega skilyrðið fyrir almennum rekstrarstyrk að félagssamtök hafi opið og endurskoðað reikningshald (ekki gerð krafa um löggilta endurskoðun) og taki saman ársskýrslur um helstu verkefni. Ekkert kemur til að mynda í veg fyrir að Landvernd nýti 14.820.000 kr. styrk ríkisins til að greiða lögfræðikostnað sem hlotist hefur af því að kæra leyfisveitingar sem hið opinbera hefur afgreitt og þarf til innviðauppbyggingar á vegum ríkisins. Fáir lögfræðingar mótmæla líklega þeirri ríkisstyrktu atvinnusköpun þeim til handa. Annað kann nú að gilda um íbúa þessa lands sem ekki njóta góðra samgangna, raforkuöryggis eða aðgengis að nútíma fjarskiptatækni.

Skúffur ráðherra of digrar

Skúffufé ráðherra og handahófskenndar styrkveitingar ráðherra í ýmis gæluverkefni hafa löngum þótt gagnrýnisverðar og hefur Ríkisendurskoðun meðal annars gert margvíslegar athugasemdir við slíka ráðstöfun á opinberu fé. Heldur batnaði ástandið með nýjum lögum um opinber fjárlög sem tóku gildi 2016 og reglugerð um styrkveitingar ráðherra sem sett var í kjölfarið.

En reglurnar og skilyrðin fyrir styrkveitingum er enn of almennar og víðtækar og aðkoma og eftirlit Alþingis, sem fer með fjárveitingarvaldið, að þessum styrkveitingum lítið sem ekkert fyrir utan að hækka fjárheimildir ráðherranna ár eftir ár. Verulega skortir á að mat sé lagt á ávinning af styrkveitingum með tilliti til stefnu, markmiða eða áherslna þeirra málaflokka sem hlutaðeigandi ráðherra ber ábyrgð á.

Aðhald og ábyrgð við ráðstöfun opinbers fjár

Ríkissjóður er ekki botnlaus uppspretta peninga heldur tekur ríkið þá af einstaklingum og fyrirtækjum til að standa undir sameiginlegum útgjöldum. Forgangsraða verður því takmörkuðum fjármunum í mikilvæg og brýn verkefni. Óstjórn og agaleysi í opinberum fjármálum verður aldrei liðin.

Styrkveitingar ráðherra eru vissulega ekki stór hluti af heildarútgjöldum ríkissjóðs en með þeim setur Alþingi og ríkisstjórn hvimleitt fordæmi sem eykur á lausung í opinberum fjármálum og gefur undan virku eftirliti með ráðstöfun opinbers fjár.

Réttast væri að afnema heimild ráðherra til styrkveitinga í lögum um opinber fjármál og færa fjárveitingarvaldið aftur til Alþingis þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar taka ákvarðanir um forgangsröðun og þurfa að standa skil á gerðum sínum í kosningum.

Teitur Björn Einarsson,

lögfræðingur og 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi