Prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum – átök um efsta sætið

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðvesturkjördæmi ákvað í dag á fundi að halda prófkjör meðal flokksmanna dagana 16. og 19. júní næstkomandi og verður kosið um fjögur efstu sætin.

Bæði Haraldur Benediktsson, alþm og Þórdís K. Gylfadóttir, ráðherra lýstu því yfir að þau gæfu kost á sér í 1. sætið. Teitur Björn Einarsson, varaþm. gefur kost á sér í 2. sætið.

Það er því ljóst að tekist verður á um forystuna í prófkjörinu. Haraldur Benediktsson skipaði efsta sætið fyrir síðustu kosningar og Þórdís var í öðru sæti. Þórdís hyggst færa sig upp í efsta sætið fyrir næstu þingkosningar.

Athyglisvert er að enn sem komið er a.m.k. hafa aðeins þrír lýst yfir framboði og eru það þrír efstu menn listans. Engin ný nöfn hafa komið fram. Hafdís Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi Ísafirði skipaði 4. sætið fyrir síðustu alþingiskosningar og er varaþingmaður , en hún hefur nú verið ráðin í stöðu sviðsstjóra hjá Ísafjarðarbæ. Hún mun draga sig úr úr bæjarmálunum í kjölfarið en óljóst er hver áhrifin verða á landsmálasviðinu.

Ritstjórnarfulltrúi á Morgunblaðinu sendi yfirlýsingu inn á fundinn

Fráfarandi formaður Kjördæmasambandsins Halldór Jónsson frá Ísafirði gerði á fundinum grein fyrir ástæðum afsagnar sinnar og deildi þar á Andrés Magnússon á Morgunblaðinu og fréttaskrif hans varðandi framboð í kjördæminu. Gaf Halldór í skyn að Andrés væri gerandi fremur en fréttaskýrandi. Þrátt fyrir að fundurinn væri lokaður sendi ritstjórnarfulltrúinn inn á fundinn  athugasemd við ræðu Halldórs. Þessi afskipti vöktu samkvæmt heimildum Bæjarins besta  töluverða furðu á fundinum.

DEILA