Náttúrugripasafnið í Bolungarvík er eina náttúrugripasafnið á Vestfjörðum

Náttúrugripasafnið í Bolungarvík er eina náttúrugripasafnið á Vestfjörðum og er það mikilvæg stofnun fyrir Vestfirðinga og fyrir þá gesti sem koma og skoða það á hverju ári. Það hefur í sinni vörslu stórt og mikilvægt safn af náttúrugripum, margir hverjir einstakir gripir með mikilvæga sögu. Náttúrugripasafnið í Bolungarvík er rekið af Náttúrustofu Vestfjarða fyrir hönd Bolungarvíkurkaupstaðar.

Eins og staðan er í dag þá er safnið í rými sem Bolungarvíkurkaupstaður hyggst endurhanna og leigja út sem íbúðir. Í stað þess hefur Bolungarvíkurkaupstaður boðið Náttúrustofu Vestfjarða að nota rými sem er til staðar í Ráðhúsinu í Bolungarvík, Náttúrustofunni að kostnaðarlausu. Þar sem flytja þarf safnið gefst kjörið tækifæri til að endurhanna það og blása ferskum anda í safn sem gegnir mikilvægu hlutverki við að fræða komandi kynslóðir og varðveita náttúrusögu landsins. Það er samkvæmt langtímastefnu Náttúrustofu Vestfjarða að tryggja að Náttúrugripasafn Bolungarvíkur standi föstum fótum í Vestfirsku samfélagi og geti veit almenningi upplýsandi og spennandi fræðslu um náttúru Íslands.

Þrátt fyrir sína sérstöðu hefur safnið ekki fengið miklar fjárveitingar og eru sýningarnar, bæði hvað varðar rýmið sjálft og vísindalega hugmyndafræðina á bak við þær, í nær upprunalegri mynd frá því að safnið var opnað 1998. Nú stendur til að endurhanna safnið en við það verður lögð áhersla á virka þátttöku gesta við miðlun efnis og að efnið sé sett fram á nýstárlegan hátt með það að leiðarljósi að vekja virðingu fyrir náttúru Íslands og að það fræði gesti um mikilvægi náttúrunnar fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu. Þar mun fræðsla um áhrif loftlagsbreytinga á vistkerfi norðurslóða  verða áhersluefni og mun sérstök áhersla verða lögð á þau vistkerfi sem hægt er að finna hér á Íslandi.

Náttúrugripasafni Bolungarvíkur er ætlað að vera vettvangur á Vestfjörðum þar sem almenningur getur nálgast fræðslu sem er byggð á vísindalegum staðreyndum um náttúru Íslands og áhrif loftlagsbreytinga á hana og mun sýningin verða sett  fram á nýstárlegan og frumlegan hátt. Fræðsluefnið mun einnig  verða tengt við markmið sem hafa verið sett fyrir samfélagið á heimsvísu og eru þannig leiðarljós fyrir allar framtíðarákvarðanir stjórnvalda, þ.e. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna varðandi loftlags- og umhverfismál. Í þessu samhengi verður Náttúrugripasafnið endurhannað með áhrif loftlagsbreytinga á náttúrunni að leiðarljósi.

Styrkur var fengin úr uppbyggingarsjóði Vestfjarða og einnig  frá Bolungarvíkurkaupstað til þess að koma hönnunarvinnunni af stað. Hönnunarteymi Gagaríns (www.gagarin.is) verður ráðið í verkið, en Gagarín sérhæfir sig á sviði stafrænnar hönnunar og framleiðslu gagnvirkra sýninga, sem miðla oft flóknum fyrirbærum á einfaldan og eftirminnilegan hátt með áherslu á spennandi upplifun gestsins.

Meðal sýninga sem Gagarín hefur hannað hér á landi eru Lava eldfjalla- og jarðskjálftasetur á Hvolsvelli, Eldheimar í Vestmannaeyjum, Hvalasafnið, Landnámssýningin Aðalstræti, Gestastofa Landsvirkjunar í Ljósafossstöð og Hljómahöllin í Reykjanesbæ. Við miðlun efnis Náttúrugripasafnsins verður  lögð sérstök áhersla á þátttöku gesta og nýnæmi í tækni, t.d. sýndarveruleiki, 3D prentaðar lífverur o.s.f.v. Unnið verður  í samstarfi við sérfræðinga frá Náttúruminjasafni Íslands við að velja efnið, þ.e. sögurnar sem safnið á að segja, og hvernig sé best að segja þær.

Fjármögnun sem þegar er fengin er ekki ætluð til þess að kosta alla þá vinnu sem leggja þarf í til að byggja upp nýtt safn heldur mun hún vera nýtt til að standa straum af undirbúningsvinnu og hönnun. Á þessu stígi mun áhersla vera lögð á hönnunarvinnuna hvað varðar náttúrusögu hugmyndafræðina og einnig hvað varðar hönnun sýningarrýmisins og aðferðir við miðlun efnisins. Aðal markmið safnsins er að auka skilning almennings, og þá sérstaklega yngri kynslóðarinnar, á því hvernig vistkerfi jarðar eru nátengd vellíðan og framtíð allra sem búa á svæðinu en aukin skilningur á því mun leiða til upplýstari og umhverfisvænni ákvörðunartöku í hversdagslífi hver og eins.

Náttúrugripasafn Bolungarvíkur er mikilvægt safn sem á sér bjarta framtíð. Með þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru og lýst er hér fyrir ofan mun safnið skjótasti inní framtíðina og verða sá vettvangur sem því er ætlað til að fræða komandi kynslóðir og varðveita náttúrusögu landsins.

Fyrir hönd Náttúrugripasafnsins í Bolungarvík,

Sigurður Halldór Árnason, M.Sc.

Forstöðumaður Náttúrustofu Vestfjarða