Náttúrufræðistofnun Íslands: laxeldi í sjó ekki í samræmi við lög um náttúruvernd

Fram kemur í umsögn Náttúruverndarstofnunar Íslands um frummatsskýrslu Arnarlax um 10.000 laxeldi í Ísafjarðardjúpi að stofnunin telur að eldið með frjóum norskum laxastofni samræmist ekki ákvæðum þriggja greina í lögum um náttúruvernd og ekki heldur alþjóðlegum samningni um vernd líffræðilegrar fjölbreytni.

Í umsögninni segir:
„Neikvæðar afleiðingar af laxeldi í sjó eru þekktar og mótvægisaðgerðir virðast ekki hafa komið í veg fyrir þær, s.s. að lax sleppi með tilheyrandi afleiðingum, þó svo að staðsetning og góður rekstur geti dregið úr
neikvæðum áhrifum. Það er fordæmisgefandi á neikvæðan hátt að líta svo á að það sé yfirleitt ásættanlegt að menga/erfðablanda villta dýrastofna tilviljunarkennt byggt á útreikningum (stærðfræðilíkönum oft með áætluðum og gefnum forsendum sem eiga að lýsa flóknum vistfræðilegum
ferlum) sem engin vissa er fyrir að séu réttir. Enn síður er vissa fyrir því hver hin endanlegu áhrif geta orðið á íslenska laxastofna. Þetta er einnig alvarlegt í ljósi þess að ekki eru fyrir hendi aðferðir, nema að mjög takmörkuðu leiti, til að fylgjast með og eða stýra hvert eldisfiskur sem sleppur fer né hvaða laxastofnar verða fyrir áhrifum.“

Er laxeldi ólöglegt?

Bæjarins besta innti stofnunina eftir því hvort þetta þýddi að stofnunin teldi laxeldið ólöglegt og hvernig brugðist yrði við auknu eldi.

Í svari Trausta Baldurssonar segir að tilvitnaðar greinar í lögum um náttúruvernd lýsi markmiðum laganna um vernd tegunda í íslenskri náttúru og að eldi með framandi tegund sem geti sloppið út í náttúruna og blandast villtum stofnum geti ekki verið í samræmi við það markmið.

Sérlög gilda og því löglegt

„Lög um náttúruvernd gilda hins vegar ekki um leyfisveitingar vegna fiskeldis í sjó heldur gilda sérlög um það ásamt því að fara þarf t.d. í mat á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000. Útkoman getur verið sú að ákveðin framkvæmd getur verið í andstöðu við almenn ákvæði laga, t.d. um náttúruvernd, um ákveðna þætti en engu að síður fengið leyfi ef ,,rétt” er staðið að málum. Í umræddu tilfelli og eftir því sem Náttúrufræðistofnun veit best hefur verið staðið löglega að veitingu leyfa og farið hefur verið eftir þeim reglum sem gilda.“ segir Trausti Baldursson í svari sínu.

Náttúrufræðistofnun Íslands er hvorki leyfiveitandi né eftirlitsaðili og það sé ekki stofnunarinnar að kæra útgefin leyfi hafi þau verið gefin út á löglegan hátt.

Það sé hins vegar afstaða Náttúrufræðistofnunar að laxeldi í sjókvium með frjóan lax af framandi kynbættri tegund sé ekki vera í samræmi við almenn ákvæði í lögum um náttúruvernd um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og vill stofnunin að ef laxeldi verði heimilað eigi það að vera með ófrjóan lax.

DEILA