Umhverfisráðherra veitti Landvernd tæplega 19 milljóna króna styrk í síðustu viku þegar hann úthlutaði ríflega 100 milljónum króna í styrk til reksturs félagasamtaka og til umhverfisverkefna.
Landvernd fékk 14.280.000 kr styrk reksturs samtakanna. Það er svipað og samtökin fengu 2019 í alls almenna styrki og verulega meira en var 2018 þegar styrkirnir voru 9.8 m.kr.
Þá fékk Landvernd að auki þrjá styrki tengda afmörkuðum verkefnum samtals um 4,4 milljonum króna.
Verkefnið Hálendið er land þitt fékk 2.000.000 kr styrk, Nýja náttúrukortið fékk 900.000 kr styrk og Græni kraginn fékk 1.500.000 kr.
Önnur samtök sem hafa látið málefni á Vestfjörðum mikið varða með kærum til úrskurðarnefnda og málshöfðun fyrir dómstólum , einkum í fiskeldi, vegagerð í Þorskafirði og virkjunaráformum á Ófeigsfjarðarheiði eru Náttúruverndarsamtök Íslands.
Umhverfisráðherra veitti þeim rekstrarstyrk að fjárhæð kr 6.660.000. Samtökin veita ekki upplýsingar um fjárhag sinn og hafa ekki svarað fyrirspurnum Bæjarins besta. Samkvæmt gögnum sem vefurin hefur undir höndum voru tekjur samtakanna árið 2018 alls 11,5 m.kr. þar af voru fengnir styrkir 8 ,5 milljónir króna. Um helmingur þeirra var fenginn erlendis frá.
Auk rekstrarstyrks fengu Náttúruverndarsamtök Íslands 770.000 kr styrk vegna ferðar fulltrúa samtakanna á 26. þings aðildarríkja Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og annan styrk 890.000 kr til að sækja samningafundur Sþ. um verndun og nýtingu líffræðilegs fjölbreytileika sjávar.
Samtals fengu þessi tvö samtök 28 milljónir króna af liðlega 100 milljóna króna fjárhæð sem úthlutað var.
Þá fengu Ungir umhverfissinnar sem ályktað hafa mjög ákveðið gegn Hvalárvirkjun og vegagerð í Þorskafirði styrk til reksturs að fjárhæð 2.580.000 kr. og annan styrk 650.000 kr til að vinna að framtíðasýn ungs fólks á hálendið.