Ísafjarðarbær: sviðsstjóri fær 1,3 m.kr. á mánuði

Föst mánaðarlaun sviðsstjóra hjá Ísafjarðarbæ frá 1. janúar 2021 eru 1.347.203 krónur. Ekki er greitt fyrir yfirvinnu sérstaklega og eingreiðslur eins og orlofs- og desemberuppbætur eru innifaldar í þessari upphæð.

Sviðsstjórar hafa hefðbundinn orlofs- og veikindarétt.

Laun sviðsstjóra miðast við launavísitölu og eru endurreiknuð í janúar ár hvert.

Staða sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar var auglýst laus til umsóknar þann 19. janúar síðastliðinn og var umsóknarfrestur til og með 4. febrúar. Tíu umsóknir bárust.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar mun taka ákvörðum um það hver verður ráðinn, líklega á næsta fundi sínum sem ráðgerður er í næstu viku.