Ísafjarðarbær: nefnd gerir athugasemd við breytingar á reglu um Hornstrandir

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur skilað af sér umsögn til bæjarráðs um fyrirhugaðar breytingar Umhverfisstofnunar á tveimur sérreglum um friðlandið á Hornströndum.

Ekki eru gerðar athugasemdir við breytingar á reglu um lendingu flugvéla innan friðlandsins, en heimildin til lendingar er rýmkuð þannig að flugvélar á vegum landeigenda mega lenda án sérstaks leyfis ef erindið er að sinna eftirliti og viðhaldi eigna eða flutningi á vistum og birgðum vegna nýtingar og viðhalds eigna.

Um hina breytinguna er gerðir ágreiningur. Umhverfisstofnun vill þrengja heimildir til kvikmyndunar og ljósmyndunar sem trufli dýralíf frá því sem nú er. Nefndin gerir bæði athugasemdir við gildandi ákvæði og fyrirhugaða breytingu á þeim.

Í umsögn nefndarinnar segir:

„Athugasemdir eru gerðar við orðalag um að kvikmyndataka og ljósmyndun skuli ekki trufla dýralíf og að truflun við aðra gesti skuli vera í lágmarki. Á sama hátt segir með almennu orðalagi að kvikmyndataka og ljósmyndun sem getur haft áhrif á náttúru svæðisins og upplifun gesta er háð leyfi UST.

Hér verður að telja að hið almenna orðalag vísi til þess að leyfisskylda vegna kvikmyndatöku og ljósmyndun sé fortakslaus, of víðtæk og á sama tíma óljós, þar sem hvergi kemur fram hver metur og hvaða forsendur eru að baki mati á því hvað veldur truflun á dýralífi og upplifun annarra gesta, eða hvað teljist mikil truflun og hvað lítil. Eins og fyrirhugað er að reglan verði sett fram má lesa út úr henni að almenn ljósmyndun allra gesta, hvort sem er í formi ljósmynda eða myndskeiða á svæðinu, sé ávallt háð leyfi UST. Verður að telja rétt að orðalagi verði breytt til að taka af vafa um heimildir gesta til að athafna sig, s.s. í formi hefðbundinnar frístundaljósmyndatöku. Þá segir að stofnuninni sé „heimilt að setja skilyrði þegar slík leyfi eru veitt“, án þess að fram komi hver þessi skilyrði séu. Eðlilegt er að skilyrði fyrir veitingu leyfa séu skýr og ljós þeim sem sækja um leyfi, og komi fram í reglunni.“

Grenjamyndataka leyfisskyld

Leggur nefndin til að orðalagið verði:

„Sótt skal um leyfi til kvikmyndatöku á grenjum innan friðlandsins fyrir tímabilið 1. maí til 31. ágúst ár hvert, ekki seinna en 30. mars ár hvert. Vegna lífríkisverndar er fjöldi leyfa til myndatöku við greni í Hornvík takmarkaður við tvö leyfi á tímabilinu 1. maí -31. ágúst. Byggja skal val á umsóknum á …“