Ísafjarðarbær: Í listinn lýsir vonbrigðum með afgreiðslu bæjarráðs

Í listinn fékk tekið á dagskrá bæjarstjórnarfundar sl. fimmtudag umsókn Bæjartúns hses um stofnframlög til bygginga á 10 íbúðum í Ísafjarðarbæ, nánar tiltekið á Flateyri. Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar var lagt til að byggja á Þingeyri og á Flateyri. Bæjarráð afgreiddi umsókina með þeim vilja að byggja einnig á Suðureyri.

Bæjarfulltrúar Í-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Bæjarfulltrúar Í-listans lýsa yfir vonbrigðum með afgreiðslu og bókun bæjarráðs vegna umsóknar Bæjartúns um stofnframlög vegna byggingar almennra íbúða á Flateyri og Þingeyri, en bæjarráð tók jákvætt í fyrirspurn félagsins varðandi byggingu á Þingeyri, en óskaði eftir viðræðum varðandi möguleg byggingaráform á Suðureyri í stað Flateyrar. Það er orðalagið í stað sem við gerum verulegar athugasemdir við.

Það er án efa eftirspurn eftir húsnæðisverkefnum víðar í samfélaginu en á Flateyri en sú þörf á ekki að koma niður á frumkvæði og áræðni Flateyringa, sem óskuðu eftir samstarfi við fyrirtækið Bæjartún um bygginga íbúða af fyrra bragði. Það ætti að vera metnaður hjá Ísafjarðarbæ að styðja við sem flest húsnæðisverkefni og forgangsraða í þeirra þágu, á meðan þörf er fyrir uppbyggingu húsnæðis í sveitarfélaginu.“

DEILA