IRIS: þriðji sæstrengurinn kemur á næsta ári

Fjármögnun á nýjum fjarskiptasæstreng milli Íslands og Írlands hefur verið tryggð með aðkomu ríkisins. Ráðgert er að taka strenginn í notkun fyrir árslok 2022, en honum er ætlað að stórauka öryggi í fjarskiptasamböndum Íslands við Evrópu í samræmi við stefnumótun ríkisstjórnarinnar í fjarskiptum fram til ársins 2033.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Strengurinn, sem hlotið hefur nafnið ÍRIS, mun liggja milli suðvestur hluta Íslands og Galway á Írlandi og verður þriðji fjarskiptastrengurinn sem tengir Ísland við Evrópu. Fyrir eru FARICE-1 og DANICE strengirnir sem tengja Ísland við Skotland og Danmörku. Farice ehf., sem nú er í fullri eigu ríkisins, á og annast rekstur strengjanna. 

Kostnaður vegna lagningu ÍRIS strengsins er áætlaður um 50 milljónir evra sem jafngildir um 7,5 – 8 milljörðum króna. . Aðkoma stjórnvalda að fjármögnuninni er fyrst og fremst í þeim tilgangi að auka fjarskiptaöryggi Íslands. Af þeirri ástæðu er ekki gert ráð fyrir kostnaðarauka fyrir innlend fjarskiptafyrirtæki vegna verkefnisins segir í fréttatilkynningunni. „Fyrirkomulag fjármögnunarinnar mun taka mið af öryggissjónarmiðum og þeim veruleika að fjarskipti og nettenging við umheiminn eru nú einn af grunninnviðum landsins. Ýmis tækifæri geta falist í beinni tengingu milli Íslands og Írlands fyrir íslensk fyrirtæki og almenning enda er Írlands ein helsta netmiðja Evrópu. Þannig styttist umtalsvert tíminn fyrir gagnaflutning til og frá Íslandi sem eykur enn gæði netsambands auk þess sem ný tækifæri gætu opnast fyrir íslensk gagnaver.“