Iðnaðarráðherra: kanna sameiningu Rarik og Orkubús Vestfjarða

Efnahags- og fjármálaráðherra fær það verkefni að vinna skýrslu um útflutningstekjur, skatta og útgjöld og sundurliða eftir landshlutum.

Þórdís K. Gylfadóttir iðnaðarráðherra sagði á Aþingi í gær að ein af aðgerðum til umbóta á regluverki á sviði raforkumála væri sameining Rariks og Orkubús Vestfjarða. Hún sagði að það væri ekki nýjar hugmyndir. Þær hefðu áður komið upp á undanförnum árum.

Þetta kom fram í svari við fyrirspurn Höllu Signýju Kristjánsdóttur, alþm Framsóknarflokksins. Halla Signý sagði að sérstaða Orkubúsins á raforkumarkaði væri sú að flutningshlutinn, sem er dreifiveitan, hefði ekki verið aðskilinn frá framleiðslu og sölu á raforku. 

„Á samráðsgátt stjórnvalda má finna drög að aðgerðum til umbóta á regluverki á sviði raforkumála. Þar er að finna tillögu um könnun á sameiningu Rarik og Orkubús Vestfjarða. Í skýrslu Deloitte er bent á að hagræða megi með sameiningu dreifiveitna og í því skyni sé fyrsti kostur að sameina þessi fyrirtæki í ljósi þess að þær dreifiveitur eru í ríkiseigu.“

Lagði Halla Signý eftifarandi spurningar fyrir ráðherrann:

„Sé vilji til sameiningar hvað hyggst ráðherra gera við þann hluta orkubúsins sem tilheyrir samkeppnishlutanum, eða framleiðslu og sölu á raforku? Í öðru lagi: Orkusalan er í eigu Rarik og sér um framleiðslu- og sölumál. Er verið að horfa til þess að sameina samkeppnishluta Orkubúsins við það fyrirtæki? Og í þriðja lagi: Ef svo er, kæmi til greina að flytja það sameiginlega fyrirtæki til Vestfjarða?“

Ráðherrann sagði í svari sínu sem fyrr segir að sameining fyrirtækjanna væri kostur sem rétt væri að kanna og að of snemmt væri að segja til um hvað yrði um samkeppnishluta Orkubúsins kæmi til slíkrar sameiningar.

„Ég tel hins vegar rétt að við setjum núna sérstaka vinnu í gang og köfum dýpra í að kanna kosti og galla við slíka sameiningu. Það er margt sem hægt er að ræða í því samhengi. Við erum með allnokkrar dreifiveitur og mismunandi eignarhald. Þessar tvær eru, eins og hv. þingmaður kom inn á, í 100% eigu ríkisins og það er ekki náttúrulögmál að þær þurfi að vera fimm. Það er einfaldlega spurning hverju við náum fram með slíkri skoðun. Við höfum auðvitað, eins og hv. þingmaður þekkir mætavel og við höfum margoft rætt hér í þessum sal, verið að vinna að því að jafna orkukostnað á landsvísu á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Hugmyndir um eina sameiginlega gjaldskrá hafa m.a. verið teknar til ítarlegrar skoðunar. Hugmyndir um sameiningu dreifiveitna eru angi af sama máli og snúa fyrst og fremst að aukinni skilvirkni og hagkvæmni við rekstur dreifikerfis raforku á Íslandi, viðskiptavinum dreifiveitna til hagsbóta, hvar sem þeir eru búsettir. Þar eigum við einfaldlega ekki að útiloka neitt að mínu mati. Hér er því lagt til að settur verði af stað formlegur starfshópur til að skoða þetta og fara í samráð við þessi fyrirtæki og aðra lykilaðila.“

Varðandi spurninguna um staðsetningu sameinaðs fyrirtækis og hvort hún yrði á Ísafirði svaraði ráðherrann því til að ekkert væri útilokað í þeim efnum.

DEILA