Framleiðsla í eldi mest á Vestfjörðum

Umfang fiskeldis er mjög mismunandi eftir landshlutum.

Mest er framleiðslan á sunnanverðum Vestfjörðum og hefur framleiðslan á því svæði stóraukist á undanförnum árum.

Alls var slátrað um 22,5 þúsund tonnum á Vestfjörðum á árinu 2020 samanborið við um 16,1 þúsund tonn árið 2019, sem er um 40% aukning.

Til samanburðar má nefna að á árinu 2015 nam framleiðslan þar rúmlega 2,9 þúsund tonnum og hefur hún þar með áttfaldast frá þeim tíma.

Þessi þróun hefur verið afar kærkomin fyrir byggðarlagið, eflt atvinnulíf þar til muna og er mikilvæg undirstaða þess að byggð geti haldið áfram að eflast.

Næstmest var framleiðslan á Austfjörðum, rúm 10,2 þúsund tonn á árinu 2020 samanborið við rúmlega um 9,7 þúsund tonn árið 2019. Jafngildir það aukningu upp á tæp 6%, en hún kemur í kjölfarið á 160% aukningu árið á undan.

Þriðja stærsta svæðið er Reykjanes, en þar voru framleidd rúm 5,1 þúsund tonn af eldisfiski. Á Reykjanesi er um eldi á bleikju að ræða en lax er langstærsti hluti framleiðslunnar á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Þess ber að geta að magn eldisfisks til slátrunar gefur ekki alveg rétta mynd af umfangi eldis eftir svæðum þar sem framleiðsluferli eldisfisks er lengra en sem nemur þeim tíma er fiskurinn er í eldiskerjum.

Til dæmis er Suðurland langstærsti landshlutinn þegar kemur að klaki og framleiðslu á seiðum fyrir aðra landshluta.

DEILA