Framkvæmdasjóður ferðamannastaða : 3,6% styrkja til Vestfjarða

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra gerði í gær grein fyrir úthlutun fjármuna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2021.

Samtals var nú úthlutað  807 milljónum króna til 54 verkefna.

Hæsti styrkurinn var kr. 97.436.114,- styrkur til sveitarfélagsins Hornafjarðar að hanna og framkvæmda göngu- og hjólastíg frá Svínafelli yfir í þjóðgarðinn í Skaftafelli. Húnavatnshreppur fékk kr. 51.500.000,- styrk til að ganga frá aðkomuplani með grjótpollum, cortenstálhliði
og girðingu, hellulögn og tilheyrandi jarðvinnu við Þrístapa og Fljótsdalshreppur fékk kr. 55.000.000,- styrk í byggingu þjónustuhúss fyrir ferðamenn með salernisaðstöðu og rými fyrir landvörslu og upplýsingagjöf.

Vestfirðir: 6 styrkir 29 m.kr.

Til Vestfjarða var úthlutað 29 milljón króna styrkfjárhæð til 6 verkefna. Nemur fjárhæðin 3,6% af úthlutaðri fjárhæð. Verkefnin sem fengu styrk voru:

Hollvinafélag Gvendarlaugar hins góða – Gvendarlaug í Bjarnarfirði- Úrbætur til að undirbúa þátttöku í Vestfjarðarleið.
Kr. 6.333.000,- styrkur sem felur í sér úrbætur í öryggismálum, sérstaklega að vetrarlagi. Slíkt bætir aðgengi á heilsársgrundvelli.

Guðrún Guðmundsdóttir – Merking og kortlagning göngu-, fjalla- og skíðleiða í Vestfirsku ölpunum kr. 3.125.000,- styrkur til að merkja og stika þekktustu göngu- og hjólaleiðir í Vestfirsku ölpunum, þar á meðal á hæsta fjall Vestfjarða, Kaldbak, gönguleiðir um sögusvið Gíslasögu og fræga hjólaleið, svokallaðan Svalvogahring. Nú eru engar leiðanna stikaðar og kort og leiðarvísar sem sett voru upp á nokkrum leiðum fyrir áratug eru nú að mestu ónýt.

Strandagaldur ses – Björgun Kotbýlis kuklarans kr. 4.679.500,- styrkur til lagfæra skemmdir á Kotbýli kuklarans sem er annar hluti Galdrasýningarinnar sem er opin allt árið þar sem gestir geta fengið innsýn í líf og kukl alþýðunnar á 17.öld sér að kostnaðarlausu. Nú þarf því að fara í aðkallandi aðgerðir til að tryggja öryggi gesta á svæðinu.

Árneshreppur: Ferðamannastaðurinn Norðurfjarðarhöfn.
Kr. 2.597.840,- styrkur til að hanna svæðið með tilliti til þess að ferðamenn geti upplifað nálægðina við höfnina þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Hafnarsvæðið í Norðurfirði er mjög vinsæll ferðamannastaður. Ferðamenn eru mjög áhugasamir um að fylgjast með hafnarstarfseminni og stefna sér iðulega í stórhættu.

Ísafjarðarbær – Göngu- og hjólaleiðir í Önundarfirði.
Kr. 6.902.100,- styrkur til að stika og merkja hjóla- og gönguleið um Klofningsdal, Eyrarfjall og aðra á fjallið Þorfinn, báðar í Önundarfirði. Um er að ræða þekktar en villugjarnar gönguleiðir þar sem nauðsynlegt er að bæta öryggi og aðgengi og gera auðveldari yfirferðar. Nákvæm lega leiðanna hefur verið ákveðin og staðsetning leiðbeinandi og vegvísandi skila og táknmynda hefur verið ákveðin. Upphafsstaðir hafa
einnig verið ákveðnir. Leyfi hefur verið fengið fyrir framkvæmdunum hjá landeiganda og sveitarfélagi.

Vesturbyggð – Upplýsingaskilti á Rauðasandi.
Kr. 5.550.000,- styrkur til bæta merkinga-og skiltamál á Rauðasandi, upplýsa
ferðamenn betur með upplýsingum um náttúru og öryggi, merkja leiðir og stýra álagi. Á skiltunum eiga að koma fram upplýsingar um náttúru, friðlönd, fuglavörp, hvað ber að varast, dýralíf, sögu, leiðbeiningar um umgengni og gönguleiðir. Við hönnun og uppsetningu skilta verður tekið mið af handbók um merkingar á ferðamannastöðum og friðlöndum.