Á fundi bæjarráðs í gær voru kynntar tillögur að frekari snjóflóðavörnum á Flateyri. Fulltrúi frá Verkís og Ofanflóasjóði gerðu grein fyrir tillögunum.
Fjórir kostir eru lagðir til:
1) Styrking 2-3 efstu húsa gagnvart yfirflæði iðufalds
2) Prófun snjóflóðagrinda uppi á Eyrarfjalli til ca. 3 ára (tvær 100-150 m langar grindur)
3) Víkkun skeringarrása við Innra-Bæjargilsgarð
4) Jarðvegsrannsóknir á uppfyllingu á hafnarsvæði, með það í huga að setja upp leiðgarð þar til varnar hafnarsvæði
Mat á kostnaði er að hann verði um 350 milljónir króna. Í minnisblaði bæjarstjóra til bæjarráðs segir að mögulegt sé að hefja vinnu við alla ofangreinda kosti við fyrsta tækifæri, og vonandi ljúka þeim flestum fyrir árslok. Kostnaður deilist ríki/sveitarfélag með 90/10 reglu.
Bæjarráð fagnaði framkomnum tillögum og felur bæjarstjóra að vinna minnisblað um þær tillögur sem eru í kynningu Verkís fyrir bæjarstjórn til samþykktar, ásamt viðauka.