Flateyri: lagfæringar á bókabúðinn kosta 33 m.kr.

Bókaverslunin á Flateyri. Mynd: Björn Ingi Bjarnason.

Fram kemur í greinargerð forstöðumanns Byggðasafns Vestfjarða að samkvæmt nýlegu mati er heildarkostnaður við lagfæringar á húsinu að Hafnarstræti 3 – 5 á Flateyri um 33 milljónir króna. Húsnæðið er í eigu Minjasjóðs Falteyrar og hefur verið boðið Ísafjarðarbæ til eignar.

Í greinargerðinni stendur:

„Ástand hússins er bágborið, það er hvorki vind- né regnhelt og nauðsynlegt er að gera á því miklar endurbætur. Þótt endurbætur hafi farið fram á þaki (1998) er talið nauðsynlegt að gera enn frekari endurbætur á því. Ráðist hefur verið í bráðaframkvæmdir til að verja húsið og forða því frekari skemmdum í vetur með því að skipta um og bæta á plötum á þaki en nauðsynlegt er að huga að því að skipta út plötum á þaki og klæðningu á útveggjum þar sem þess gerist þörf. Gluggar eru allir illa farnir og nokkrir hvorki vatns- né vindheldir. Nauðsynlegt er að endurnýja lagnakerfi hússins (vatn
frá 1908 og rafmagn frá 1923) að öllu leyti eða hluta.“

Hafnarstræti 3-5 á Flateyri er eitt af elstu húsum á Flateyri, reist árið 1898 af Bergi Rósinkranssyni kaupmanni. Jens Eyjólfsson keypti húsið árið 1914 og var það í eigu sömu fjölskyldu til ársins 2003 þegar Minjasjóður Önundarfjarðar festi kaup á því. Verslun hefur verið rekin í húsinu nánast óslitið frá árinu 1906 en lengst af undir heitinu Bræðurnir Eyjólfsson. Húsið og herbergisskipan er að mestu óbreytt en breytingar voru gerðar 1953.

Húsið er hluti af einstakri og nánast upprunalegri götumynd á Flateyri segir í greinargerðinni og ennfremur:

„Um er að ræða afar vinsælan viðkomustað ferðamanna og einstakt tækifæri fyrir fólk að fá innsýn inn í gamla verslunarhætti og hýbýli kaupmannshjónanna. Mikilvægt er því að hlúa að varðveislu þeirra menningarverðmæta sem
þar eru, skrá þau og mögulega forverja.“

Forstöðumaður Byggðasafnsins telur það alveg ljóst að hraða þurfi viðhaldi hússins til að forða frekari skemmdum og þá auknum kostnaði. „Hægt er að fá styrk frá húsafriðunarnefnd til þeirra framkvæmda á móti framlagi eiganda, sem gróft áætlað væri ekki undir 20 milljónum.“

Framtíðarleiðir

Hvað varðar framtíðarrekstur hússins eru nokkrar leiðir færar. Sú fyrsta væri að halda sama fyrirkomulagi og nú er, bærinn myndi þá leigja núverandi rekstraraðila húsið. Í annan stað gæti bærinn tekið yfir reksturinn eða falið Byggðasafninu reksturinn sem krefst þá mannafla og meiri umsvifa með tilheyrandi kostnaðarauka. Óvísst er með tekjur á móti þeim kostnaðarauka. Þriðja leiðin er að núverandi rekstraraðili yfirtaki húsið af Minjasjóðnum með skilyrðum um skráningu og forvörslu muna og forkaupsrétt Ísafjarðarbæjar að húsinu.

Málið var rætt í bæjarráði í gær og var því vísað til atvinnu- og menningarmálanefndar til umfjöllunar.



.

DEILA