Fjórðungssambandið: Hafdís hættir sem formaður. Jóhanna Ösp tekur við.

Hafdís Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur sent stjórninni bréf þar sem hún tilkynnir um afsögn sína. Stjórnin mun halda fund á mánudaginn og þar mun Jóhanna Ösp Einarsdóttir, sveitarstjórnarmaður í Reykhólasveit taka við sem fomaður.

Hafdís sagði í samtali við Bæjarins besta að ástæðan væri sú að hún hefði verið ráðin í starf sviðsstjóra hjá Ísafjarðarbæ og myndi því hætta sem bæjarfulltrúi og draga sig út úr bæjarmálunum. Því fylgdi að hún myndi einnig láta af trúnaðarstörfum fyrir Fjórðungssambandið. Hafdís sagðist hlakka til nýja starfsins og jafnframt óska Fjórðungssambandinu og bæjarstjórninni alls hins besta í störfum sínum.

Aðspurð um þátttöku í landsmálunum, en Hafdís er varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sagði hún að hún hefði ákveðið að einbeita sér að nýja starfinu og myndi ekki, að þessu sinni, taka þátt í prófkjörinu sem framundan er hjá flokknum.

DEILA