Fáum Herjólf strax og svo nýtt skip til framtíðar

Vandamál Baldurs í liðinni viku þekkja allir, 27 tíma sigling frá Brjánslæk í Stykkishólm var ekki þjónustan sem farþegar og flutningafyrirtæki töldu sig hafa borgað fyrir.

Það sem er gert er gert, en það er þó vert að halda til haga að þetta er ekki fyrsta uppákoman í tengslum við það skip sem nú siglir um Breiðafjörð.  Við sem hér skrifum rituðum grein í nóvember 2017 undir yfirskriftinni „Vegurinn verður lokaður í vetur!“ í tengslum við langvinna bilun sem á endanum stöðvaði siglingar Baldurs í rúma tvo mánuði og síðasta sumar dró Hringur SH Baldur til hafnar í Stykkishólmi, vélarvana, rétt eins og hann varð nú.

Við þetta verður ekki búið.  Vandamálið er tvíþætt; annars vegar þarf lausn fljótt til að leysa þann bráðavanda sem uppi er, síðan þarf lengri tíma stefnumörkun sem verður að hafa það að markmiði að boðlegt skip sinni þessari þjónustu þar til vegasamgöngur um sunnanverða Vestfirði, og þá sérstaklega að vetri til, verða orðnar forsvaranlegar. Dráttur á bráðalausninni er ekki valkostur í ljósi þeirra miklu vöruflutninga sem nú eiga sér stað, en þeir hafa aukist verulega síðan bilunin varð í lok árs 2017.

Bráðalausnin er Herjólfur

Skilgreint varaskip fyrir Baldur, skv. samningum Vegagerðarinnar er Gamli-Herjólfur, sem er auðvitað stærra og öflugra skip en sá Baldur sem nú siglir.  Undirrituðum þykir blasa við að Vegagerðin beini úrlausn málsins í þann farveg að Herjólfur hefji nú þegar siglingar um Breiðafjörð, á meðan Baldur er í viðgerð og mögulega eitthvað áfram.  Smávægileg aðlögun á rampi sitthvoru megin Breiðafjarðar er smáatriði í stóru myndinni og ef aðkoma Samgöngustofu sem eftirlitsaðila er nauðsynleg, þá þarf að ganga í það mál. Skv. þeim upplýsingum sem undirritaðir hafa þá er nú þegar búið að ramma inn í samningi hvernig kostnaðarskiptingu milli Vegagerðar og þjónustuaðila verður háttað, það er því ekki eftir neinu að bíða.

Framtíðarlausnin er nýtt skip

Núverandi samningur um siglingar Baldurs rennur út árið 2022.  Það þarf nú þegar að hefja vinnu við langtímastefnumörkun hvað siglingar um Breiðafjörð varðar.  Að okkar mati þarf að horfa til langrar framtíðar í þeim efnum, enda Klettshálsinn farartálmi um vetur, sem bættir vegir um Gufudalssveitina leysa ekki.  Með þeirri gríðarlegu atvinnuuppbyggingu sem er að verða á svæðinu blasir við að allar forsendur eru til þess að nýtt og gott skip ætti að vera farið að þjónusta siglingar um Breiðafjörðinn árið 2022, ef ekki fyrr.

Bergþór Ólason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. 

Sigurður Páll Jónsson, fulltrúi í atvinnuveganefnd Alþingis.

Þingmenn Miðflokksins í NV-kjördæmi.