Eyrarfjall: Umhverfisstofnun vill umhverfismat

Skipulagsstofnun hefur til meðferðar tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd um að koma upp kláf sem fer upp á Eyrarfjall við Skutulsfjörð. Reist yrði mastur við Hlíðarveg, millmaastur á Gleiðarhjalla og endamastur og aðstöðuhús á toppi Eyrarfjalls. Í öðrum áfanga yrði reist veitingahús á Eyrarfjalli og í þriðja áfanga gistieiningar eða hótel. Kostnaður er áætlaður á þriðja milljarð króna.

Skipulagsstofnun tekur ákvörðun um það hvort framkvæmdin þurfi að fara í umhverfismat eða ekki og leitar álits nokkurra aðila áður en stofnunin gefur út sína niðurstöðu.

Einn umsagnaraðilinn er Umhverfisstofnun og hefur hún birt svar sitt á vefsíðu stofnunarinnar. Er það álit Umhverfisstofnunar að þar sem ekki sé um að ræða framkvæmd til þess að tryggja öryggi íbúa og um sé að ræða nýjung í mannvirkjagerð sé rétt að fram fari umhverfismat. Telur stofnunin að líklegt sé að framkvæmdin gæti haft umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Gissur Skarphéðinsson, einn aðstandenda málsins var ekki sammála Umhverfisstofnun og sagði að unnið væri að svari við þessari umsögn sem yrði sent Skipulagsstofnun.

Skipulagsstofnun hefur ekki lokið athugun sinni.

DEILA