Danska herstjórnin á Grænlandi, Joint Arctic Command, hefur fylgst grannt með jarðskjálftahrinunni sem staðið hefur yfir að undanförnu á Reykjanesi. Herstjórnin ber ábyrgð á leitar og björgunarmálum Dana í Norður-Atlantshafi.
Landhelgisgæslan er í daglegu samstarfi við Dani vegna leitar og björgunarmála á svæðinu og í gær buðu Danir fram alla þá aðstoð sem mögulegt er að veita ef þess yrði óskað.
Greiðvikni dönsku herstjórnarinnar er ekki ný af nálinni því Danir fluttu viðbragðsaðila og nauðsynlegan búnað vegna óveðursins sem geisaði á Norðurlandi í lok árs 2019 og sendu björgunarþyrlu til Íslands í sumar til að vera Landhelgisgæslunni til halds og trausts meðan þjálfun áhafna LHG stóð yfir í Frakklandi svo dæmi séu tekin.
Boð Dana er til marks um mikilvægi þess nána og öfluga samstarfs sem þjóðirnar eiga í leitar-, björgunar-, öryggis og eftirlitsmálum.