Byggðastofnun: 50% hærri orkukostnaður á Vestfjörðum en í Reykjavík

  Orkukostnaður heimila á Ísafirði og Patreksfirði er 276 þúsund krónur á ári, sem er 50% hærri en í Reykjavík. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Byggðastofnunar um orkukostnað heimila m.v. gjaldskrár 1. september 2020. Heildarkostnaðurinn er frá 145 þúsund krónur á ári upp í 284 þúsund krónur á ári.

  Byggðastofnun fékk Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli, við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni, á nokkrum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli. Viðmiðunareignin er einbýlishús, 140 m2 að grunnfleti og 350 m3. Almenn raforkunotkun er sú raforka sem er notuð í annað en að hita upp húsnæði, s.s. ljós og heimilistæki, en miðað er við 4.500 kWst í almennri rafmagnsnotkun og 28.400 kWst við húshitun án varmadælu og 14.200 kWst með varmadælu.

  Raforka – tvöfaldur munur

  Hvað raforku varðar er lægsta mögulega verð fyrir viðmiðunareignina, með flutnings- og dreifingarkostnaði hjá Veitum: Í Mosfellsbæ, í Reykjavík, Kópavogi, austurhluta Garðabæjar, á Seltjarnarnesi og á Akranesi, um 79 þ.kr. Hæsta gjald í þéttbýli er um 92 þ.kr. hjá Orkubúi Vestfjarða en raforkuverð eru áberandi hærri í dreifbýli, hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða, eða um 121 þ.kr. Lægsta mögulega raforkuverð heimila í dreifbýli er því um 54% hærra en lægsta mögulega verð í þéttbýli.

  Húshitun – þrefaldur munur

  Þegar kemur að húshitunarkostnaði er munurinn á milli svæða mun meiri en á raforkuverði. Lægsti mögulegi kostnaður þar sem húshitun er dýrust er um þrefalt hærri en þar sem húshitun er ódýrust. Lægsta mögulega verð er hæst á stöðum þar sem þarf að notast við beina rafhitun, meðal annars á Grundarfirði, á Hólmavík, á Neskaupstað, á Reyðarfirði, í Vík og á Vopnafirði auk dreifbýlis á svæðum RARIK og Orkubús Vestfjarða. Rafhitunarkostnaður hefur þó lækkað talsvert undanfarin ár vegna niðurgreiðslna á dreifi- og flutningskostnaði.