Bolungavík: hugmynd að nýjum miðbæ í aðalskipulagstillögunni

Mynd úr aðalskipulagstillögunni sem sýnir vel nýja miðbæjarskipulagið.

Í dag kl 17 verður kynningarfundur í Félagsheimilinu í Bolungavík og í fjarfundi á tillögu að aðalskipulagi bæjarins fyrir 2020 -2032.

Meðal hugmynda sem þar er bryddað upp á er um nýtt miðbæjarskipulag. Byggt er á því að miðsvæðið myndi fjölbreyttan, öflugan og heilsteyptan miðbæ með gott framboð af þjónustu.

Í miðbænum geti þrifist fjölbreytt starfsemi sem mæti þörfum íbúa og styðji við uppbyggingu ferðaþjónustu.

​Miðbærinn verði vistlegur og með áherslu á aðgengi gangandi og hjólandi.

​Uppbygging miðbæjar hafi skýr tengsl við atvinnulíf og sögu svæðisins.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að þetta sé framsækin og áhugaverð tillaga.

„Að setja Hafnargötu frá Vitastíg út fyrir Örnu er metnarfullt verkefni og skemmtileg. Þessi hugmynd er þó vissulega bara hugmynd og tilgangur kynningar á deiliskipulagi er einmitt að ræða hugmyndir eins og þessa, kosti hennar og galla. Mín persónulega sýn á miðbæ Bolungarvíkur hefur snúið að því að teygja hann í átt að hafnarsvæðinu. Ég hef séð margar skemmtilega og vel heppnaðar útfærslur þar sem hafnarsvæði er breytt að hluta til í þjónustusvæði, með verslunum, matsölustöðum og ýmiskonar iðnaði í bland. Höfnin í Bolungarvík er gríðarlega lifandi og skemmtileg höfn þar sem til staðar eru miklir möguleikar til að þróa hana enn frekar. Bæði með hagsmuni útgerðar og vinnslu í huga og jafnframt með hagsmuni ferðaþjónustu og verslun. Tækifærin eru endalaus!“

DEILA