Aðalfundur Sigurvonar í kvöld

Krabbameinsfélagið Sigurvon heldur aðalfund í kvöld kl. 20 að Suðurgötu 9 á Ísafirði. Coronafaraldurinn og sóttvarnir settu svip sinn á starfsár Sigurvonar að þessu sinni og var því einblínt á flutninga í nýtt húsnæði og endurskipulag. Þá var einnig sett í loftið glæný heimasíða á léninu krabbsigurvon.is þar sem hægt er að koma á framfæri fræðslu og upplýsingum en einnig hægt að sækja um styrki og skrá sig í félagið.

Aðstandendur Sigurvonar hlakka til að koma inn af fullum krafti er fjöldatakmarkanir og aðrar sóttvarnaraðgerðir verða ekki lengur fjötur um fót. Fastir liðir geta þá hafist á ný eins og bleikt boð í október og aðventukvöld í desember.

Þá verður fyrsti hittingur ársins hjá stuðningshópnum Vinum í von haldinn næsta laugardag kl. 11 í húsakynnum Vesturafls í fjölsmiðjunni í Suðurgötu. Um er að ræða samverustundir einstaklinga sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendanna þeirra. „Allir eru hjartanlega velkomnir og alltaf heitt á könnunni en vanalega hittist hópurinn annan hvern laugardag fyrir vetrartímann. Hittingar hafa verið stopulir síðan farsótt herjaði á heimsbyggðina og því mikil tilhlökkun að geta komið aftur saman,“ segir Thelma Hjaltadóttir, starfsmaður Sigurvonar.

Sigurvon hefur í tvo áratugi beitt sér fyrir því að veita krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra fjárhagslegan og andlegan stuðning á starfsvæði sínu á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum.

Í félaginu eru nú skráðir hátt í 400 manns sem með því að styrkja félagið eru að styðja við bakið á þeim sem greinast með krabbamein. Félagið hefur til að mynda greitt gistikostnað fyrir félagsmenn er þeir þurfa að sækja meðferð til Reykjavíkur og gista í íbúðum Krabbameinsfélags Íslands eða á sjúkrahóteli. Fjármagn sem hlýst af árgjaldi er eyrnamerkt fyrir slíkt enda er það meginmarkmið félagsins að styðja við sitt fólk svo það þurfi ekki að búa við skertari kjör sökum búsetu sinnar.

„Það gætum við ekki án þess dyggilega stuðnings og velvilja sem við hljótum í okkar heimabyggð,“ segir Thelma.

DEILA